Innlent

Íslenskt áramótamyndband slær í gegn

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Þegar klukkan sló tólf á miðnætti á gamlárskvöld myndaði Andrés Sighvatsson flugeldana með GoPro-myndavél sem fest var neðan í litla, fjögurra hreyfla, fjarstýrða þyrlu. Myndbandið setti hann á netið og hafa viðbrögðin verið mikil. Horft hefur verið á myndbandið rúmlega 20 þúsund sinnum á rétt rúmum tveimur dögum.

„Ég fattaði ekki að þetta yrði svona vinsælt,“ segir Andrés í samtali við Vísi. „Þetta var nú bara eitthvað stundarbrjálæði. Vélin fór í loftið þrjár mínútur í miðnætti og lenti nokkrum mínútum síðar.“

Myndbandið er tekið í Áslandshverfinu í Hafnarfirði og segir Andrés að þetta hafi verið hans þriðja flug með vélinni sem hann fékk í byrjun desembermánaðar. „Það var ekki búið að vera hið besta veður til að fljúga en vélin er sniðug að því leyti að það þarf ekki neina reynslu til að fljúga henni. Þú hleður bara batteríin og þá er hún tilbúin í flug. Í henni er áttaviti, hæðar- og hraðamælir og GPS. Ef þú missir stjórnina eða sambandið við vélina snýr hún sjálf heim.“

Andrés játar að líklega geti hann flokkast sem græjunörd. „Já konan mín myndi allavega segja það. Ég vinn í þessum tölvubransa og hef alltaf haft áhuga á græjum. En ef ég hefði vitað að þetta myndband færi „viral“ hefði ég kannski eytt aðeins meiri tíma í það og klippt það eitthvað til.“

Myndbandið er engu að síður stórskemmtilegt og má sjá í spilaranum hér fyrir ofan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×