Innlent

Kristinn Hrafnsson í stælum á CNN

Jakob Bjarnar skrifar
Kristinn Hrafnsson lenti í orðahnippingum við Jeffrey Toobin sem ekki vildi skilja líkingar Kristins.
Kristinn Hrafnsson lenti í orðahnippingum við Jeffrey Toobin sem ekki vildi skilja líkingar Kristins.
Kristinn Hrafnsson, talsmaður Wikileaks, var í viðtali á CNN um málefni Edward Snowdens í gær og lenti þá í stælum við Jeffrey Toobin lögmann og álitsgjafa.

„[He’s] implicitly comparing the actions of the United States here to the Nazis, who, of course, were only following orders like the NSA. That is a grotesque and absurd comparison, and it just shows how crazy these people are… who are supporting Snowden.”

(„Hann er hér að líkja aðgerðum Bandaríkjanna saman við þær sem sneru að nasistum, sem voru náttúrlega, rétt eins og NSA, aðeins að framfylgja skipunum. Þetta er hrikalegur og fáránlegur samanburður, sem sýnir fyrst og síðast hversu sturlaðir þeir eru sem styðja Snowden.”)

Þetta sagði er Jeffrey Toobin, lögfræðingur og blaðamaður, sem var ekki alveg með á nótunum á CNN í gær þegar Kristinn Hrafnsson vísaði til Nürnberg-lögmálsins. Eða hvernig ber að skilja þetta?

„Það ber nú ekkert að skilja þetta öðru vísi en svo að þarna er á ferðinni maður sem ekki hefur skilning á því grundvallaratriði sem ég, og við hjá Wikileaks, höfum haldið fram um langt skeið að þegar uppljóstrarar standa frammi fyrir því vali að þurfa að brjóta lög til að vernda æðri gildi þá eru þeir í fullum rétti til að gera það. Ég vísaði til þess og maðurinn ákvað að misskilja þetta með þessum heiftarlega hætti sem svo olli þessum orðahnippingum,“ segir Kristinn og lætur sér hvergi bregða.

Til umræðu var leiðari New York Times þar sem hvatt er til þess að Edward Snowden, fyrrum starfsmaður NSA og uppljóstrari, fá sakaruppgjöf í eigin landi.

„Þetta markar ákveðin tímamót ytra og var mikið tekið eftir því í fjölmiðlum í gær. Er reyndar alveg hárrétt nema ég bætti því við að það ætti að ganga lengra og undirbúa heimkomu Edward Snowden til Bandaríkjanna sem þeirrar hetju sem hann er.“

Þú ert enn að binda við það vonir að íslensk stjórnvöld greiði götu Edward Snowden?

„Fyrir hálfu ári nefndi Snowden Ísland sérstaklega í fyrsta viðtali sem hann veitti og batt þá vonir við að hann fengi hér eitthvert skjól. Það varð til þess að leitað var til stjórnvalda um að þau myndu styðja við bakið á hann. Já, ég bind enn vonir við að íslenska þjóðin sjái ljósið. Það vill svo til að í árdaga, í sögu okkar lands, þegar sæmd skipti máli voru þeir kallaðir heppnir sem gátu veitt öðrum hjálparhönd og bjargað lífi. Við höfum nú tækifæri til að vera sem þjóð heppin með því að aðstoða Edward Snowden.“

Edward Snowden dvelur nú í Rússlandi þar sem hann hefur tímabundið hæli fram í ágúst en Wikileaks eru í stöðugu sambandi við hann þar. Eftir því sem næst verður komist er Snowden því ekki fráhverfur að koma til Íslands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×