Innlent

Fannfergi í New York: „Þetta er í raun bara skondið“

Stefán Árni Pálsson skrifar
Hrund Þórsdóttir er stödd í New York.
Hrund Þórsdóttir er stödd í New York. mynd/samsett
Fannfergi gengur nú yfir norðausturhluta Bandaríkjanna og hefur þurft að aflýsa þúsundum flugferða í miðvesturríkjunum.

Ríkisstjórarnir í New York og New Jersey hafa lýst yfir neyðarástandi í ríkjunum og hvetja fólk til þess að halda sig innandyra.

„Það byrjaði aðeins að snjóa í gærkvöldi og túristum hér í kringum okkur fannst þetta í raun bara frekar fyndið. Þá var um að ræða fólk sem kannski hafði aldrei séð snjó áður var að velta þessu mikið fyrir sér,“ segir Hrund Þórsdóttir, fréttakona á Stöð 2, sem stödd er í New York.

„Í morgun var kannski komið 15-20 sentímetra snjór á götum borgarinnar sem verður að teljast frekar lítið á íslenskum mælikvarða. Það er samt sem áður búið að lýsa yfir neyðarástandi í borginni sem ég tel að sé aðeins vegna samgönguvandamála. Það er búið að fresta um 4000 flugum frá borginni. Við eigum flug heim á morgun og ég veit ekki enn hvernig það á eftir að fara.“

„Þegar maður horfir út um gluggann á hótelinu þá sér maður bara mjög fallegt veður úti, en heimamenn eru auðvita ekki vanir svona aðstæðum. Við tókum eftir því í fréttum í morgun þegar fréttakona var að biðla til íbúa New York að halda sig heima vegna veðurs að það var varla snjókorn á götunni fyrir aftan hana, í raun er þetta bara frekar skondið.“

Nánar verður rætt við Hrund í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×