Innlent

"Kærleikur einskorðast ekki við trúarbrögð“

Hjörtur Hjartarson skrifar
Brynjar Níelsson, þingmaður
Alþingismaðurinn, Brynjar Níelsson segir að kristin trú þurfi að standa af sér ófrægingarherferð. Hann óttast að afkristnun íslensku þjóðarinnar muni stuðla að upplausn samfélagsins og afmenningu þess. Stjórnarmaður hjá Siðmennt segir rangt að einskorða kærleika við trúarbrögð.

Brynjar var með ræðu í messu í Seltjarnarneskirkju á nýársdag þar sem þetta kom meðal annars fram. Þar segir Brynjar jafnframt að fækkun undanfarinna ára í þjóðkirkjunni megi helst rekja til rægingaherferðar sem trúin, kirkjan og kristileg gildi verða fyrir.

"Þegar menn hafa stofnað félagsskap þar sem beinlínis er talað um kristna trú sem blekkingu og hindurvitni. Það er auðvitað að rægja, það er ekki mikil virðing borin fyrir fólki sem trúir, kristnu fólki," segir Brynjar.

Sigurður Hólm Gunnarsson hjá Siðmennt gefur hinsvegar lítið fyrir þessi orð Brynjars sem hann segir á villigötum.

"Ég berst ekki gegn kristinni trú, alls ekki. Ég berst fyrir samfélagi þar sem er umburðarlyndi gagnvart ólíkum lífsskoðunum. Ég berst fyrir veraldlegu samfélagi þar sem hið opinbera skiptir sér ekki af því með beinum hætti hverrar trúar eða hvaða lífsskoðun ég hef," segir Sigurður.

Í stórri alþjóðlegri könnun á trúrækni þjóða kemur fram að Ísland er í níunda sæti yfir trúlausustu þjóðir heims. Kína, Japan og Tékkland skipa þrjú efstu sætin. Trúuðustu þjóðir heims eru Ghana, Nígería og Armenía. Þá kemur einnig fram í könnunni að þeim Íslendingum sem telja sig trúaða hefur fækkað úr 74 prósentum, 2005 í 57 prósent 2012. Þróunin er afgerandi.

"Ef við hættum að kenna þetta, trúa þessum gildum, þá mun það auðvitað hafa áhrif á íslenskt samfélag. Það gerist ekkert að sjálfu sér," segir Brynjar.

Þessu er Sigurður ósammála. Hann segir að kærleikur og manngildi ekki einskorðast við trúarbrögð, hvorki kristin né önnur.

"Siðferði hefur ekkert með trú að gera. Siðferði fjallar um hvernig við hugsum um náungann, hvernig við hegðum okkur gagnvart náunganum og það er algjörlega óháð trúarbrögðum."

Brynjar segir að spyrna verði við fótum til að koma í veg fyrir að kristinfræði verði hornreka í menntun Íslendinga. Hann hefur ekki ákveðið hvort hann hyggst beita sér fyrir málinu innan veggja Alþingis. Kristilegu gildin verði hinsvegar að vera í hávegum höfð.

"Þetta er hluti af okkar kristilegu arfleið og ætla að fara að þynna þetta út eða eyða þessu út úr skólakerfinu gæti verið mjög óheillavænleg þróun."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×