Innlent

„Maðurinn ekki lengur bundinn af efnislegum veruleika"

Kjartan Hreinn Njálsson skrifar
Bylting er yfirvofandi í framleiðsluháttum mannsins. Gríðarlegar framfarir hafa orðið í þrívíddarskönnun og prentun og er þessi nýstárlega tækni nú á allra færi.

Bylting er yfirvofandi í framleiðsluháttum mannsins. Gríðarlegar framfarir hafa orðið í þrívíddarskönnun og prentun og nú er þessi nýstárlega tækni á allra færi. Kjartan Hreinn Njálsson fréttamaður kynnti sér málið og fékk að stíga inn í þrívíddarskanna.

Þrívíddarprentun boðar byltingu í framleiðsluháttum, þar sem framleiðslumagnið skiptir ekki máli og fjöldaframleiðslan sem slík er ekki lengur á vegum stórfyrirtækja eða stjórnvalda, heldur fólksins. Árið sem nú er gengið í garð verður stórt ár í sögu þrívíddartækni. Þessi nýjung verður brátt ódýrari og aðgengileg.

Tólf öflugar myndavélar taka sjötíu ljósmyndir sem síðar verða að þrívíðri ljósmynd.MYND/FRÉTTASTOFA
Sjálf prentunin er þó aðeins önnur hliðin á peningnum. Þrívíddarskönnun er sjálf forsenda þess að tilraunin heppnist. Með henni er hægt að endurgera tiltekin hlut eins oft og þörf er á. Í raun er þessi tækni ekki takmörkum háð og hefur víðtæka skírskotun í menningarlegu og félagsfræðilegu samhengi sem og í heilbrigðisgeiranum.

Mark Florquin er heilmyndasmiður og einblínir á þrívíddarskönnun fyrir leikjaframleiðendur og tískuhús vítt og breitt um heiminn. Hann er sannfærður um að þessi tækni muni á endanum snerta alla fleti daglegs lífs.

Eins og svo oft er með framandi og nýstárlega tækni þá eru möguleikarnir nær ótakmarkaðir. Við erum oft örlítið hegómafull þegar tækni sem þessi er annars vegar, því fékk fréttamaður að stíga inn í þrívíddarskanna Florquins.

„Það er hægt að skanna allt. Það þarf bara að nota mismunandi skanna fyrir mismunandi aðstæður og mismunandi hluti,“ segir Mark. „Það er hægt að sýndargera heiminn sem við búum í.“

„Allt er sýndarveruleiki og allir geta upplifað sinn eigin heim eins og þeir vilja.“MYND/FRÉTTASTOFA
„Maður þarf ekki að safna birgðum heldur er hægt að framleiða eftir þörfum, í hvaða efni sem maður vill, sem er í rauninni umhverfisleg bylting. Maður er ekki lengur bundinn við efnislegan veruleika. Allt er sýndarveruleiki og allir geta upplifað sinn eigin heim eins og þeir vilja.“

Tólf öflugar myndavélar taka sjötíu ljósmyndir sem síðar verða að þrívíðri ljósmynd sem hægt að prenta. Fígúran sem fréttamaður fékk er úr sandsteini, meitluð og máluð í þrívíddarprentara.

Hin mikla bylting sem felst í þessari tækni er sú að möguleikar til að breyta eða fínstilla tiltekna vöru verða ótakmarkaðir. Það þarf ekki nýja verksmiðju. Aðeins fínstillingar í hugbúnaði. Sköpunargleði einstaklingsins tekur þar með við af gæðastjórnun fjöldaframleiðslunnar og gerræði einsleikans.

Ranald með fígúruna.MYND/FRÉTTASTOFA
„Skönnunartæknin hefur nú náð prenttækninni,“ segir Ranald Haig, sölustjóri hjá ProNor. „Við höfum getað prentað svona í rúm tuttugu ár, en það hefur ekki verið hægt að skanna í lit og skapa rétta styttu fyrr en núna.“



Sp. blm. Því ætti venjulegur neytandi að kæra sig um þrívíddarskönnun?



„Hvort viltu heldur hafa mynd af fjölskyldunni á arinhillunni eða módel?“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×