Innlent

Leggja áherslu á leiðréttingu launa

Samúel Karl Ólason skrifar
Mynd/Daníel
Samningaviðræður kennara og stjórnenda í framhaldsskólum við ríkið ganga hægt. Félög framhaldsskólakennara og stjórnenda í framhaldsskólum eru nú í viðræðum við samninganefnd ríkisins um endurnýjun kjarasamnings sem rennur út í lok þessa mánaðar.

Í fréttatilkynningu frá samtökunum kemur fram að fimm samningafundir hafi verið haldnir og að félögin hafi kynnt ríkinu samningshugmyndir sínar í byrjun desember. „Í ljósi mjög slakrar launa- og kaupmáttarþróunar félagsmanna KÍ í framhaldsskólum undanfarin ár má vænta þess að samningar verði erfiðir,“ segir í tilkynningunni.

„Eins og fram kom í frétt RÚV um samningamál samtaka opinberra starfsmanna í gær kemur KÍ lakast út. Þetta sýnir skýrsla um launaþróun á vinnumarkaði frá  2006 til 2013. Munurinn á meðaldagvinnulaunum KÍ og helstu viðmiðunarhópa hjá ríki er nú um 17% en meðallaun sérfræðinga á almennum markaði eru næstum tvöföld meðallaun kennara í framhaldsskólum. Grunnlaun nýútskrifaðs framhaldsskólakennara með fimm ára háskólamenntun eru um 300 þúsund krónur á mánuði.“

Samninganefndirnar leggja áherslu á að í þeirri samningsgerð sem nú er hafin þurfi að leiðrétta laun í framhaldsskólum og gera kjörin sambærileg kjörum skyldra hópa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×