Innlent

Kenna ber börnum að varast netníðinga

Maður á sextugsaldri var í dag dæmdur í héraðsdómi Reykjaness í fimm mánaða skilorðsbundið fangelsi fyrir að hafa brotið kynferðislega gegn tólf ára stúlku í gegnum Skype.

Maðurinn, sem er fæddur árið 1961 játaði að hafa á fjögurra daga tímabili í byrjun árs 2012 villt á sér heimildir við stúlkuna, sem þá var tólf ára gömul, á samskiptavefnum skype.

Þar gaf hann til kynna að sjálfur væri hann 15 ára.

Maðurinn vann þannig traust stúlkunnar og á þessum skamma tíma átti við hana samtöl um kynferðisleg málefni. Hann lýsti því ítrekað að hann vildi hafa við hana samræði og hvernig hann hugðist gera það ásamt því að tjá henni kynferðislega hugaróra sína.

Í dómnum er því lýst hvernig maðurinn fékk stúlkuna einnig til þess að bera sig fyrir framan vefmyndavélina og fylgdist hann með henni í margvíslegum kynferðslegum athöfnum.

Auk þess sannfærði hann stúlkuna um að senda sér ljósmyndir sem sýndu hana á klámfenginn hátt.

Hrefna Sigurjónsdóttir er formaður heimilis og skóla og verkefnastýra SAFT. Hún segir brot sem þessi engum um að kenna nema gerendum.

Hinsvegar sé margt sem foreldrar geti gert til þess að upplýsa börn sín um þær hættur sem fyrirfinnast á netinu. 

Í meðfylgjandi myndskeiði úr kvöldfréttum Stöðvar tvö má sjá viðtal við Hrefnu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×