Innlent

Hægt að fletta upp ættingjum vestanhafs

Vestur-íslensk kona hefur í samstarfi við íslenskan ættfræðing opnað ættfræðigagnagrunn þar sem fólk getur flett upp ættingjum sínum vestanhafs. 

Sunna Pam Furstenau er fædd og uppalin í Norður-Dakóta í Bandaríkjunum. Föðurætt Sunnu er íslensk, en fjölskylda hennar flutti vestur um haf á árunum 1882-1895.

Sunna flutti í dag erindi í Háskóla Íslands um íslenska afkomendur landnema í Norður-Ameríku. Þetta er í áttunda sinn sem hún kemur til Íslands til að flytja erindi í máli og myndum um afkomendur íslensku landnemanna í Norður-Ameríku og hvernig þeim hefur tekist að varðveita íslenska menningararfinn.



Sunna hefur frá árinu 2003 unnið að ættfræðirannsóknum. Nýlega keypti hún ættfræðigrunn Hálfdánar Helgasonar og stofnaði utan um hann sjálfseignarstofnunina Icelandic Roots, sem virkar á svipaðan hátt og Íslendingabók, en þar getur fólk flett upp íslenskum ættingjum sínum bæði hér á landi og vestanhafs. Sunna og Hálfdán munu á komandi árum vinna að áframhaldandi þróun gagnagrunnsins, en hann er að finna á vefsíðu Iceland Roots. 

Íslenskur menningararfur er Sunnu afar hugleikinn. Þá er þjóðbúningur sem fjölskylda hennar gaf henni í fimmtugsafmælisgjöf árið 2010 í miklu uppáhaldi. 

„Þegar ég fékk búninginn hélt ég að ég myndi kannski nota hann tvisvar á ári við sérstök tilefni en nú hef ég notað hann oftar en sextíu sinnum. Ég klæðist honum við hvert tækifæri,“ segir Sunna. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×