Innlent

Gæsluvarðhald vegna stórfelldrar líkamsárásar

Hanna Rún Sverrisdóttir skrifar
Maðurinn sem var stunginn hlaut lífshættulega áverka.
Maðurinn sem var stunginn hlaut lífshættulega áverka. mynd/GVA
Hæstiréttur staðfesti í dag gæsluvarðhaldsúrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur yfir karlmanni sem grunaður er um stórfellda líkamsárás með því að stinga annan mann með hnífi á veitingastað í Reykjavík síðastliðið laugardagskvöld. 

Maðurinn skal sæta gæsluvarðhaldi til 10. janúar og einangrun á meðan. Samkvæmt framburði vitna kom til átaka á milli mannanna þar sem sá sem stunginn var ásakaði hinn kærða um þjófnað á bifreið. Það hafi svo farið þannig að hinn kærði stakk hinn. Sá var fluttur á slysadeild.

Hinn kærði fór einnig á slysadeild ásamt fleirum og bað hann eitt vitnið um að stinga sig með hnífnum. Þegar sá vildi ekki gera það lét maðurinn sig hverfa. Lögreglan elti hann uppi og handtók hann.

Maðurinn sem var stunginn hlaut lífshættulega áverka en stungan náði inn að milta og hlaut hann blæðingar í kviðarholi og missti töluvert blóð.

Að mati lögreglu sem staðfest var af Hæstarétti má ætla að ef hinn kærði verður látinn laus muni hann eiga þess kost að torvelda rannsókn málsins. Með því til dæmis að hafa áhrif á vitni sem lögreglan á eftir að ræða við.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×