Innlent

Hvetur fyrirtæki til að halda aftur af verðhækkunum

Höskuldur Kári Schram skrifar
Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri SA.
Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri SA.
Framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins segir að boðaðar verðhækkanir á innlendum vörum sendi neikvæð skilaboð út á vinnumarkaðinn. Fyrirtæki þurfi að sýna ábyrgð og halda aftur af hækkunum til að stuðla að sátt.

Birgjar hafa boðað allt að 7 prósenta hækkun á innlendum vörutegundum þrátt fyrir að gengi krónunnar hafi styrkst á síðustu vikum. Hækkunin kemur á sama tíma og launþegar greiða atkvæði um nýgerða kjarasamninga sem fela í sér launhækkun upp á 2,8 prósent. Eitt helsta markmið samninganna var að tryggja lága verðbólgu og auka kaupmátt.

Arnar G. Hjaltalín formaður Drífanda stéttarfélags segir að verið sé að gera grín að launafólki með þessum hækkunum . Hann hvetur launþega til að fella samningana.

„Þessar verðhækkanir sem við erum búin að sjá nú þegar eru ekkert eðlilegar. 21% hækkun á komugjaldi til læknis, 20% á heilsugæslustöðvar og boðaðar verðhækkanir 5 til 7% á matvöru. Þegar búið verður að samþykkja samningana þá fyrst fáum við holskeflu verðhækkana yfir okkur,“ segir Arnar.

Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir að þessar verðhækkanir sendi röng skilaboð út í samfélagið.

„Við erum sameiginlega að reyna að takast á við verðbólguna og ef að það á að takast þá þurfa allir aðilar sem koma að verðlagsákvörðunum að sitja á sér. Ekki bara í januar og febrúar heldur til lengri tíma litið. Við þurfum að brjóta þennan vítahring víxlhækkana. Við teljum að það sé tækifæri núna með hófstilltum kjarasamningi,“ segir Þorsteinn.

Hann hvetur fyrirtæki til að halda aftur af verðhækkunum.

„Það er alveg ljóst að það mun hafa neikvæða áhrif hvort sem litið er til tímapunktisins núna eða þegar kemur að endurnýjun kjarasamninga næsta haust. Við höfum sagt að boltinn sé hjá fyrirtækjum. Þau verða að sýna ábyrgð og halda aftur af verðhækkunum,“ segir Þorsteinn




Fleiri fréttir

Sjá meira


×