Innlent

Framhaldsskólakennarar til í aðgerðir nái þeir ekki fram verulegum kjarabótum

Heimir Már Pétursson skrifar
Langlundargeð framhaldsskólakennara er á þrotum. Segjast haga dregist aftur úr sambærilegum stéttum hjá ríkinu.
Langlundargeð framhaldsskólakennara er á þrotum. Segjast haga dregist aftur úr sambærilegum stéttum hjá ríkinu.
Tugir félaga opinberra starfsmanna eru með lausa kjarasamninga og vilja ná fram meiri launahækkunum en samið var um á almennum vinnumarkaði á dögunum. Harka gæti hlaupið í samninga framhaldsskólakennara sem telja sig hafa dregist aftur úr hjá hinu opinbera.

Stærsti hluti verkalýðsfélaga var aðili að nýgerðum skammtíma kjarasamningum á almennum vinnumarkaði sem gerðir voru fyrir áramótin og fólu í sér 2,8 prósenta almenna launahækkun frá 1. janúar auk tæplega tíu þúsund króna hækkunar á laun undir 265 þúsund krónum. Þeir samningar hafa verið kallaðir aðfararsamningar og byggja á þeim sameiginlega skilningi að þegar verði hafinn undirbúningur að langtímasamningum næsta haust.

Samningarnir eiga að tryggja að verðbólga fari ekki á skrið, en hún er nú þegar um 4 prósent þannig að launahækkun samninganna heldur ekki í við verðbólguna.

Tuttugu og þrjú aðildarfélög Bandalags háskólamanna, BHM og 25 aðildarfélög BSRB reyna nú samninga við ríki og borg og ljóst að hjá þessum félögum vilja menn meiri kjarabætur en samið var um á almenna markaðnum. Elínbjörg Jónsdóttir formaður BSRB segir aðildarfélögin semja hvert fyrir sig.

„Umræðan hjá okkur hefur verið sú að gera kjarasamning til stutts tíma einfaldlega til að reyna að átta okkur betur á því umhverfi sem við erum að fara inn í,“ segir Elínbjörg.

Ertu bjartsýn á að samningar ykkar félagsmanna muni takast á næstu vikum?

„Ég er svona hæfilega bjartsýn með það,“ segir Elínbjörg.

Róðurinn gæti hins vegar orðið þungur hjá framhaldsskólakennurum. Viðmælendur fréttastofu innan Kennarasambandsins segja kennara orðna langþreytta á sínum kjörum og þeir telji að þeir hafi orðið eftir í launaskriði hjá hinu opinbera miðað við sambærilegar stéttir. Framhaldsskólakennarar telji sig hafa sýnt mikið langlundargeð á undanförnum árum og ekki verði beðið lengur með að leiðrétta þeirra kjör og þar á bæ tala menn jafnvel um að farið verði í verkfall, verði ekki komið til móts við kröfur þeirra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×