Innlent

Ferðamenn heillast upp úr skónum í Hallgrímskirkju

Heimir Már Pétursson skrifar

Það sveif heilagur andi yfir vötnum í Hallgrímskirkju í morgun þegar Mótettukór kirkjunnar æfði söngverk ýmissra tónskáld við kveðskap Hallgríms Péturssonar. Tónleikarnir verða í kirkjunni í morgun en fjöldi ferðamanna heillaðist upp úr skónum á æfingunni í dag.

Fjögurhundruð árum eftir fæðingu Hallgríms Péturssonar er hann enn að blása tónskáldum andann í brjóst. En Mótettukórinn mun flytja úrval laga við sálma hans á tónleikum í Hallgrímskirkju annað kvöld.

Fjöldi erlendra ferðamanna naut óvæntra tónleika kórsins á æfingunni í morgun og voru heillaðir bæði af kirkjunni og tónlistinni. Þeirra á meðal voru Sir William Gage, dómari við áfríunardómstól Englands sem nú hefur sest í helgan stein og eiginkona hans Lady Gage. En þau voru að enda fjögurra daga ferðalag sitt um Ísland og voru frá sér numin af fegurð kirkjunnar og tónlistarinnar.

„Eftir þessa óvæntu tónleika förum við með fallegar minningar frá Reykjavík,“ sagði Lady Gage meðal annars og dómarinn fyrrverandi sagði hljómburðinn frábæran en hann þekkir töluvert til kirkjutónlistar þar sem hann hefur verið formaður í sókn Coventry kirkju.

Hörður Áskelsson stjórnar Mótettukórnum að vanda og segir lykilinn að því að tónlistarmenn og tónskáld heillist enn af kveðskap Hallgríms Péturssonar vera einfaldan.

„Það er náttúrlega andagift og snilld. Hans list er á einhverju því plani að það heillar fólk enn þann dag í dag,“ segir Hörður.

Horfa má á brot úr æfingu kórsins hér fyrir ofan, viðtal við Hörð og bresku aðalshjónin Sir. William Gage og Lady Gage.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×