Innlent

Lífríki sjávar: Íslendingar sinna forvörnum illa

Hrund Þórsdóttir skrifar
Í fréttum okkar í gær greindum við frá því að framandi sjávarlífverum við Ísland hefði fjölgað mikið á undanförnum árum og sumar þeirra væru skaðlegar. Aukninguna má helst rekja til aukinnar skipaumferðar, en skip sem koma til landsins hafa sleppt kjölfestuvatni fullu af framandi lífverum í sjóinn umhverfis landið.

Hagsmunir Íslendinga af verndun lífríkis sjávarins eru miklir og erfitt er að verjast ágengum tegundum í sjó eftir að þær hafa náð fótfestu. Forvarnir eru því besta ráðið.

Guðrún Þórarinsdóttir, sjávarlíffræðingur hjá Hafrannsóknastofnun, segir Íslendinga ekki hafa sinnt forvörnum nógu vel en bendir þó á að árið 2010 hafi verið tekin í gildi reglugerð sem feli í sér að ekki megi lengur losa kjölfestuvatn innan mengunarlögsögu Íslands.

Þá var í bígerð að breyta lögum um innflutning á sjávarlífverum. „Vegna þess að í mörgum tilfellum er það innflutningur á sjávarlífverum sem verður þess valdandi að það koma nýjar tegundir. Þær sleppa út og verða ráðandi eða önnur dýr sem fylgja þeim. Með ostrum geta til dæmis komið veirur og þess háttar,“ segir Guðrún.

Ný náttúruverndarlög áttu að taka gildi nú í byrjun apríl en ráðherra felldi þau úr gildi svo ekki varð af þessu.

Lífverur hafa einnig borist til landsins sem ásætur á skipsskrokkum. Ekki er hægt að ætlast til þess að skip séu hreinsuð áður en þau sigla til landsins en Guðrún bendir á leið sem Ástralir hafa farið. „Þeir vita að það eru tegundir sem þeir vilja alls ekki fá í sína lögsögu og þá er útbúinn listi og fenginn þeim aðilum sem koma á skipum og þeir þurfa að votta að þessar tegundir fylgi ekki skipunum.“

Langflestar nýjar tegundir hafa fundist á Suðvesturhorninu, aðallega í Hvalfirði, því þar er sjávarhiti mikill, þangað koma mörg skip og þar er besta vöktunin. „Þannig að við þurfum að auka rannsóknir annars staðar. Í Reyðarfirði er t.d. mikil skipaumferð og við þurfum að fylgjast betur með þar, á Akureyri og alls staðar þar sem eru stórar hafnir.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×