Innlent

Sá grasfræjum í kalsárin

Brjánn Jónasson skrifar
Gras þolir að liggja undir klaka í tvo til þrjá mánuði, en eftir það fer það að skemmast.
Gras þolir að liggja undir klaka í tvo til þrjá mánuði, en eftir það fer það að skemmast. Fréttablaðið/Daníel
„Klakann hefur tekið upp, en það eru víða stórir klakaflákar eftir. Grasið þolir tvo til þrjá mánuði undir klaka, og þangað erum við komin í dag,“ segir Þórólfur Jónsson, garðyrkjustjóri Reykjavíkurborgar.

Hann segist hafa áhyggjur af því að grasið sem enn liggur undir ísnum verði fyrir kalskemmdum og drepist.

„Við þolum það þótt það komi kal á umferðareyjar, en það er verra með boltavelli og í skrúðgörðunum,“ segir Þórólfur. Hann segist búast við því að eitthvað verði um graslausar skellur í vor, og líklega verði brugðist við því með því að sá grasfræjum í sárin.

Þótt borgarstarfsmenn sái í kalsárin segir Þórólfur ljóst að grasið muni aldrei líta vel út þetta sumarið á þeim stöðum þar sem kalskemmdir séu verulegar. Enn sé þó of snemmt að spá um hvort ástandið verði slæmt. Klakinn sé óðum að minnka, en helst þurfi góða hláku til að restin fari.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×