„Viking Tours sér um rekstur skipsins og ber ábyrgð á siglingunum en Eimskip um söluhliðina og upplýsingagjöf, miðar í Víking eru seldir á heimasíðu Herjólfs og í afgreiðslu Herjólfs í Vestmannaeyjum,“ útskýrir Gunnlaugur.
Siglingar Víkings eru samþættar við áætlun Strætó á Suðurlandi, tvær ferðir á dag ef aðstæður leyfa.
Verðið á aðgöngumiðum í Víking er það sama og í Herjólf en Víkingur er í um 40 til 50 mínútur að sigla á milli Landeyjahafnar og Vestmannaeyja. Víkingur ristir töluvert minna en Herjólfur og er því hentugri fyrir Landeyjahöfn yfir vetrartímann þegar dýpi er takmarkandi en hins vegar getur Víkingur ekki siglt ef ölduhæðin fer yfir 2,4 metra.
„Ölduhæðin er þó bara fyrsta hindrunin, það er margt sem spilar inn í. Ef fólk á miða í Víking og ferð fellur niður vegna ófærðar fær fólk miðann endurgreiddan eða það getur flutt sig í ferð Herjólfs til Þorlákshafnar þannig að það verður ekki strandaglópar.“

Herjólfur mun áfram sigla tvær ferðir á dag til Þorlákshafnar. Víkingur mun sigla tvær ferðir á dag, frá Vestmannaeyjum klukkan 8.30 og 17.30 og frá Landeyjahöfn klukkan 10 og 19.
„Gert er ráð fyrir að Herjólfur geti hafið sigilingar til Landeyjahafnar um miðjan marsmánuð þannig að þetta verkefni er stillt af miðað við það.“