Innlent

Nemendur niðurhala námsbókum ólöglega

Þórhildur Þorkelsdóttir skrifar
Sala námsbóka hefur dregist töluvert saman síðustu ár, en sífellt færist í aukana að háskólanemar spari sér fé með því að niðurhala bókunum ólöglega af netinu.

„Þetta er þróun sem að við þurfum að mæta og takast á við. Auðvitað eru ákveðin lög og reglur sem gilda um hvort það megi fjölrita efni og dreifa því á netinu,“ segir Rebekka Sigurðardóttir, upplýsingafulltrúi Félagsstofnunar stúdenta og bætir því við að margir kennarar fjölfaldi einnig námsefni með þessum hætti.

Sömu lög gilda um niðurhal á bókum eða texta og á tónlist og kvikmyndum. Það er ólöglegt nema með leyfi höfundar eða höfundarrétthafa.

Rebekka segir niðurhalið koma niður á Bóksölu stúdenta þar sem salan hefur dregist saman síðustu ár. Þá hafi verð á erlendum bókum einnig hækkað mikið eftir hrun. Námsbækurnar geta kostað allt frá nokkur þúsund krónum upp í tugi þúsunda.

„Auðvitað er skiljanlegt að manneskja sem lifir á 140 þúsund krónum á mánuði leiti leiða til að spara,“ segir Rebekka.

Þeir nemendur sem við ræddum við í dag voru almennt sammála um að þeir hefðu niðurhalað námsefni og vissu til þess að margir gerðu það.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×