Innlent

„Hér eru allir skólar lokaðir vegna kuldans“

Stefán Árni Pálsson skrifar
Gríðarlegur kuldi er í Bandaríkjunum.
Gríðarlegur kuldi er í Bandaríkjunum. mynd/aðsend
„Það er mjög kalt,“ segir Ágúst Ingvar Magnússon, íbúi í Milwaukee í Bandaríkjunum, en gríðarlegur kuldi hefur verið vestanhafs síðustu daga.

Ekkert lát virðist vera á kuldakastinu sem gengið hefur yfir norðausturhluta Bandaríkjanna og Kanada síðustu daga og víða mældist allt að sextíu sentímetra jafnfallinn snjór í nótt.

Sextán dauðsföll hið minnsta hafa verið rakin til veðursins og veðurfræðingar spá enn meiri kuldum á næstu dögum og óttast er að frostið gæti farið niður í fimmtíu og eina gráðu, ef vindkæling er talin með.

„Eftir því sem ég best veit er mínus fjörtíu gráður hér og eru nánast allir innandyra. Ég hef ekkert farið út í dag en konan mín er að fara í vinnuna bráðlega og þá verður fróðlegt að sjá hvernig okkur mun ganga að koma bílnum í gang.“

„Hér eru allir skólar lokaðir og fólki er bent á það að vera innandyra. Almenningur er samt sem áður töluvert að fara í matvöruverslanir til að birgja sig upp af mat og undirbúa næstu daga. Þetta er í raun ótrúlegt.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×