Innlent

Dæmdir fyrir að ráðast á lögreglumenn

Samúel Karl Ólason skrifar
Vísir/Pjetur
Tveir menn voru dæmdir í Héraðsdómi Norðurlands eystra fyrir brot gegn valdstjórn. Annar mannanna var dæmdur í tveggja mánaða fangelsi og hinn í sex mánaða fangelsi skilorðsbundið til þriggja ára. Þá þarf hvor um sig að greiða tæplega 700 þúsund krónur í málsvarnarlaun og saman rúmlega 300 þúsund krónu í annan sakarkostnað.

Aðfararnótt sunnudagsins 5. ágúst réðust mennirnir á lögreglumenn við veitingahúsið Púlstofuna. Þeir hrintu og slógu lögreglumennina og annar mannanna stök á bak lögreglumanns og tók hann hálstaki.

Báðir féllu þeir í jörðina þar sem maðurinn herti takið frekar svo lögreglumaðurinn átti erfitt með öndun. Hann sleppti ekki takinu fyrr en aðrir lögreglumenn beittu kylfu og úðavopni gegn honum.

Hinir ákærðu mótmæltu rannsókn lögreglu harðlega við munnlegan málflutning og töldu ástæðu til vísa málinu frá. Gagnrýndu þeir að frumskýrsla lögreglu stafaði einungis frá einum brotaþola, ekki hefðu verið teknar vitnaskýrslur af lögregluþjónum og ekki af öðru fólki sem verið hefði á staðnum og séð atburði.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×