Innlent

Vilja hafa áhrif á niðurstöðu dómstóla í hrunsmálum

Höskuldur Kári Schram skrifar
Steingrímur J. Sigfússon þingmaður VG.
Steingrímur J. Sigfússon þingmaður VG. vísir/gva
Steingrímur J. Sigfússon þingmaður Vinstri grænna og fyrrverandi fjármálaráðherra telur rétt að Alþingi fjalli sérstaklega um tilraunir manna til að hafa áhrif á niðurstöðu dómstóla í málum sem tengjast hruninu.

Þetta kom fram í máli Steingríms á Alþingi í dag. Hann segir að Alþingi beri að standa vörð um dómstóla og tryggja sjálfstæði þeirra.

„Það ber nokkuð á því um þessar mundir að bæði leikir og löglærðir fjalli um hlutverk og stöðu dómstólanna í þessu sambandi og séu að reyna að senda þeim skilaboð að dómstólarnir verði að forðast að láta andrúmsloftið í samfélaginu hafa áhrif á sig. Sumir tala um eitthvert hatursandrúmsloft í þessum efnum. En er þá ekki á ferðinni akkúrat það sem þessir sömu menn eru að biðja menn að varast þ.e. tilraunir til þess að reyna að hafa áhrif á dómstóla en þá í gagnstæða átt?“ sagði Steingrímur.

Hann segir að Alþingi beri að standa vörð um sjálfstæði dómstóla og tryggja þeim viðunandi starfsskilyrði. Þá sagði hann það vera umhugsunarefni að dregið hafi verið úr fjárveitingum til sérstaks saksóknara.

„Ég leyfi mér að velta því upp hvort að ekki sé ástæða til þess að viðeigandi þingnefndir sem gætu verið allsherjarnefnd og stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd fari yfir þessa stöðu,“ sagði Steingrímur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×