Enski boltinn

Reina vill fá Bale til Real Madrid

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Pepe Reina, markvörður Liverpool, segist gjarnan vilja losna við Gareth Bale úr ensku úrvalsdeildinni. Þetta segir hann við spænska fjölmiðla.

„Ég yrði hæstánægður með ef Real Madrid myndi kaupa Bale. Það er mjög erfitt að eiga við hann," sagði Bale í gamansömum tón við spænska blaðið Marca.

Real Madrid hefur lengi haft augastað á Bale sem hefur verið frábær með Tottenham að undanförnu og skorað hvert glæsimarkið á fætur öðru.

Reina er einnig spurður út í hvort hann telji líklegt að hann sé á leið til Barcelona, þar sem Victor Valdes, núverandi markvörður Börsunga, hefur tilkynnt að hann muni fara frá félaginu þegar samningur hans rennur út í vor.

„Ég er viss um að Victor Valdes hafi sínar ástæður fyrir því að vilja fara. Ég ber virðingu fyrir honum. Hann er liðsfélagi og vinur minn. En allt tal um að ég sé á leið til Barcelona eru bara vangaveltur. Ég er samningsbundinn Liverpool og er ánægður hér," sagði Reina.

Hann telur einnig að Luis Suarez, liðsfélagi sinn hjá Liverpool, muni ekki spila í spænsku deildinni. „Ég á erfitt með að ímynda mér það. Ég tel að hann verði áfram hjá Liverpool, enda frábær leikmaður - rétt eins og Bale og svo margir aðrir í ensku úrvalsdeildinni."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×