Enski boltinn

Lucas hefur mikla trú á Coutinho

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Brasilíumaðurinn Lucas Leiva segir að landi sinn Phillipe Coutinho geti mögulega slegið í gegn hjá Liverpool ef hann fær tíma til að aðlagast nýjum aðstæðum.

Liverpool keypti Coutinho frá Inter á Ítalíu í síðasta mánuði og hann skoraði sitt fyrsta mark fyrir liðið í 5-0 sigri á Swansea í ensku úrvalsdeildinni um helgina.

„Ég er virkilega ánægður fyrir hans hönd," sagði Leiva í viðtali á heimasíðu Liverpool. „Við höfum rætt um hversu hröð knattspyrnan er hér á Englandi og hann hefur meira að segja fundið fyrir því á æfingum. Boltinn er mun hraðari hér en á Ítalíu."

„Hann þarf tíma til að aðlagast en þetta mark mun gefa honum sjálfstraust. Hann er bara 20 ára gamall og verður vonandi frábær leikmaður fyrir félagið í framtíðinni."

„Hann hefur allt til brunns að bera. Við þurfum bara að veita honum þann stuðning sem hann þarf."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×