Innlent

Tafir á fjárlögum seinka kröfugerð

Jóhanna Margrét Einarsdóttir skrifar
Þorsteinn Víglundsson og Gylfi Arnbjörnsson.
Þorsteinn Víglundsson og Gylfi Arnbjörnsson.
Engin formleg samvinna er hafin milli stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins vegna komandi kjarasamninga. Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir að samtökin hafi á síðustu vikum þrýst á stjórnvöld að hefja þessa samvinnu.

Gylfi Arnbjörnsson, forseti Alþýðusambands Íslands, segir að megináherslan verði á að auka kaupmátt í komandi samningum. „Óvissuþátturinn er hins vegar að menn vita ekki hvað ríkisstjórnin ætlar sér eða hvers konar peningastefnu hún ætlar að móta.“ Gylfi segir að það tefji vinnu verkalýðsfélaganna varðandi kröfugerðina að ríkisstjórnin leggur fjárlög ekki fram fyrr en 1. október. „Á meðan menn vita ekki hvað verður í þeim seinkar það allri vinnu varðandi kröfugerð félaganna.“

Bæði verkalýðshreyfingin og atvinnurekendur hafa það að markmiði að ná tökum á verðbólgunni.

„Við höfum bent á að ein megin orsök verðbólgunnar eru miklar launabreytingar á síðustu árum. Laun á Íslandi hafa hækkað um 100 prósent frá síðustu aldamótum, kaupmáttur hefur á sama tíma aukist um 9 prósent. Á hinum Norðurlöndunum hafa laun að meðaltali hækkað um 40 prósent á sama tíma en kaupmáttur hefur aukist um 18 prósent. Hófstilltar launabreytingar á Norðurlöndunum hafa leitt af sér mun lægri verðbólgu og meiri gengisstöðugleika en við höfum búið við,“ segir Þorsteinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×