Innlent

Bandaríkjamönnum ekki treystandi að mati Birgittu

Jakob Bjarnar skrifar
Birgitta Jónsdóttir furðar sig á fyrirætlunum um samstarf við Bandaríkjamenn á sviði öryggismála.
Birgitta Jónsdóttir furðar sig á fyrirætlunum um samstarf við Bandaríkjamenn á sviði öryggismála. Anton
Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata, geldur varhug við fyrirætlunum um samstarf við Bandaríkjamenn í öryggismálum, í ljósi þeirrar þekkingar sem við ættum að hafa eftir afhjúpanir Edward Snowden.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra leiddi í gær umræðu um norðurslóðir á fundi sem norrænir forsætisráðherrar og forseti Finnlands áttu með Barack Obama forseta Bandaríkjanna. Í tilkynningu frá Forsætisráðuneytinu segir að Sigmundur hafi meðal annars fjallað um þau tækifæri og áskoranir sem fælust í breytingum sökum loftslagsbreytinga, jafnt í efnahagslegu, félagslegu, umhverfislegu og öryggislegu tilliti. Áréttaði ráðherra mikilvægi svæðisbundinnar samvinnu, m.a. innan vébanda Norðurskautsráðsins.

Jafnframt voru ræddar öryggisáskoranir 21. aldar og auknir möguleikar Norðurlandanna og Bandaríkjanna til samstarfs á ýmsum sviðum, m.a. á sviði öryggismála, orkumála og samstarfs á norðurslóðum, ekki síst á vettvangi Norðurskautsráðsins.

Birgitta Jónsdóttir, gefur ekki mikið fyrir þetta, sem fyrr segir. Hún spyr hvort Íslendingar ættu virkilega að treysta Bandaríkjamönnum í slíku samstarfi? Að hennar mati væri nærtækara að fara í aukið samstarf við Norðurlöndin til að verja réttinn til upplýsingar og friðhelgi einkalífs gegn ágangi erlendra ríkja, eins og t.d. USA og fyrirtækja þarlendis í einkalíf almennings.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×