Innlent

Villandi upplýsingar í auglýsingum

Haraldur Guðmundsson skrifar
Sending að bera það með sér að um sé að ræða gjöf frá gefanda búsettum erlendis og að tengsl séu milli hans og þess sem gjöfina fær.
Sending að bera það með sér að um sé að ræða gjöf frá gefanda búsettum erlendis og að tengsl séu milli hans og þess sem gjöfina fær.
Embætti tollstjóra sendi í dag frá sér tilkynningu þar sem varað er við þeirri fullyrðingu að ekki þurfi að greiða toll né önnur lögbundin gjöld af pökkum sem sendir eru hingað til lands og merktir sem gjöf. Embættið segir fullyrðinguna vera beinlínis ranga og að engin innistæða sé fyrir henni því meginreglan sé sú að greiða skuli aðflutningsgjöld af öllum vörum sem fluttar eru til landsins.

„Á því hefur borið að undanförnu, að einstaklingar,  búsettir  erlendis,  bjóðist til að kaupa varning, einkum fatnað fyrir Íslendinga og senda hingað til lands, gegn ákveðinni þóknun sér til handa. Að auki er fullyrt að ekki þurfi að greiða toll né önnur lögbundin gjöld af vörunni,  þar sem pakkinn sé merktur sem „gjöf."  Auglýsingar þessa efnis hafa birst á tilteknum vefsíðum á netinu,“ segir í tilkynningu Tollstjóra.

Þar segir enn fremur að skilyrði undanþáguheimildar sé þegar um gjöf af sérstöku tilefni sé að ræða. Gjafir vegna afmælis, brúðkaups, jóla eða fermingar teljast meðal annars vera gjafir af sérstöku tilefni í þessu samhengi. Sending þarf einnig að bera það með sér að um sé að ræða gjöf frá gefanda búsettum erlendis og að tengsl séu milli hans og þess sem gjöfina fær. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×