Enski boltinn

Liverpool skellti Tottenham | Gylfi lék allan leikinn

Guðmundur Marinó Ingvarsson skrifar
Mynd/Nordic Photos/Getty
Liverpool sigraði Tottenham 3-2 í stórleik dagsins í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta. Steven Gerrard tryggði Liverpool sigurinn með marki úr vítaspyrnu átta mínútum fyrir leikslok.

Luis Suarez kom Liverpool yfir 21. mínútu þegar hann afgreiddi boltann frábærlega í markið úr þröngu færi.

Örfáum andartökum fyrir hálfleik jafnaði Jan Vertonghen með skalla eftir aukaspyrnu Gareth Bale. Bale átti aftur fyrirgjöfina þegar Vertonghen nýtti sér vandræði Liverpool í að hreinsa á áttundu mínútu seinni hálfleiks og Tottenham komið yfir.

Stewart Downing jafnaði metin á 66. mínútu með hægri fæti eftir skelfileg mistök Hugo Lloris í marki Tottenham.

Það var svo Steven Gerrard sem tryggði Liverpool sigurinn á 82. mínútu með marki úr vítaspyrnu sem dæmd var eftir að Assou-Ekotto braut á Luis Suarez.

Liverpool er komið í 45 stig í 6. sæti og er nú sjö stigum á eftir Chelsea í fjórða sæti deildarinnar en Chelsea á leik til góða.

Gylfi Þór Sigurðsson lék allan leikinn fyrir Tottenham sem er í þriðja sæti deildarinnar með 54 stig. Gylfi fékk tvö góð færi í leiknum en náði ekki að skora.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×