Innlent

Tugir þúsunda ferðamanna heimsækja virkjanir landsins

Heimir Már Pétursson skrifar
Hellisheiðavirkjun er vinsæll viðkomustaður ferðamanna.
Hellisheiðavirkjun er vinsæll viðkomustaður ferðamanna.
Virkjanir landsins eru meðal vinsælustu viðkomustaða bæði innlendra og erlendra ferðamanna á Íslandi. Gústaf Adolf Skúlason framkvæmdastjóri Samorku segir tugi þúsunda ferðmanna heimsækja helstu virkjanir landsins á hverju sumri en sumar þeirra séu opnar allt árið.

„Fyrir erlenda ferðamenn er þetta mikil upplifun að skoða sérstaklega jarðhitann. Vatnsaflið þekkja nú fleiri. En jarðhitinn er mikil upplifun fyrir marga,“ segir Gústaf Adolf. Þá sæki íslenskir ferðamenn bæði vatnsafls- og jarðvarmavirkjanir í heim í vaxandi mæli.

„Á ársgrundvelli sýnist okkur þetta vera á annað hundrað þúsund manns sem eru að koma og heimsækja virkjanir og önnur slík mannvirki á vegum orkufyrirtækjanna á ári hverju,“segir Gústaf Adolf.

Virkjanir landsins eru því með vinsælustu ferðamannastöðum landsins. Gústaf Adolf segir að margfalda megi tölu gesta ef tengd mannvirki eins og Bláa lónið, Perlan og jarðvarmaböðin við Mývatn væru talin með.

„Sú virkjun sem trekkir að flesta ferðamenn er Hellisheiðarvirkjun sem segja má að sé hluti af Gullna hringnum sem margir fara á Gullfoss, Geysi og Þingvelli og koma svo í Hellisheiðarvirkjun. Þangað er að koma nánast helmingurinn af þessum fjölda,“ segir Gústaf Adolf Skúlason framkvæmdastjóri Samorku.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×