Enski boltinn

Titilvonir City nánast úr sögunni | Everton í Evrópusæti

Mynd/Nordic Photos/Getty
Everton vann 2-0 sigur á Manchester City þrátt fyrir að hafa misst Steven Pienaar af velli með rautt spjald snemma í síðari hálfleik.

Manchester United fær því tækifæri til að auka forystu sína á toppi deildarinnar í fimmtán stig þegar að liðið leikur gegn Reading klukkan 17.30 í dag. Ef það tekst má ljóst vera að titilvonir City verða nánast úr sögunni.

Everton komst yfir með glæsilegu marki Leon Osman sem skrúfaði boltann í netið af 30 metra færi. Kevin Mirallas hafði þá komið boltanum í mark City en markið var dæmt af.

Pienaar fékk svo rautt spjald þegar um stundarfjórðungur var liðinn af síðari hálfleik fyrir sína aðra áminningu í leiknum. City náði þó ekki að nýta sér meðbyrinn og Nikica Jelavic innsiglaði sigur Everton með marki eftir skyndisókn í uppbótartíma.

Leikmenn City vildu þó fá víti þegar hendi var dæmd á Fellaini í stöðunni 1-0. Belginn stóð inn í teig þegar hann fékk boltann í sig en dómari leiksins dæmdi engu að síður aukaspyrnu utan teigs, City-mönnum til mikillar gremju.

Maður leiksins var Jan Mucha sem stóð vaktina í marki Everton í fjarveru Tim Howard, sem er meiddur. Mucha varði oft glæsilega í leiknum.

Sigurinn kom Everton upp í fimmta sæti deildarinnar, upp fyrir Arsenal og Liverpool. Everton er með 48 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×