Innlent

Brauðgjafir hvetja máv til kríuungadráps

Heimir Már Pétursson skrifar
Mávager við Bakkatjörn á Seltjarnarnesi er algert skaðræði og leggst mávurinn meðal annars á kríuunga sem varla eru orðnir fleygir.

Það er rómantísk tilhugsun að fara niður að Bakkatjörn á Seltjarnarnesi og gefa öndunum brauð, en það getur verið misskilin góðmennska því brauðið dregur að sér mávinn og hann er að valda miklum usla í kríuvarpinu.

Þegar fréttastofu bar að garði í morgun var einmitt maður í góðri trú að fóðra endurnar með brauði. En þá sveimar mávurinn yfir og lendir síðan mitt í hópi andanna og álftahjónanna og hrifsar til sín brauðið. Kríuvarpið á Nesinu hefur tekist vel og þykir mönnum sorglegt ef mávurinn nær að spilla því, en golfari náði meðal annars ljósmyndum af mávi með stálpaðan kríuunga í gogginum.

„Ein hugmyndin var að skjóta hann," segir Soffía Karlsdóttir sviðsstjóri hjá Seltjarnarnesbæ. En Jóhann Óli Hilmarsson fuglafræðingur hafi mælt gegn því og sagt að það gerði ekki mikið gagn. "Hann segir að besta ráðið sé að reyna að koma í veg fyrir það eins og hægt er að  fólk sé að brauðfæða endurnar á tjörninni," segir hún.

Á þessum árstíma hafi varpfuglar nægjanlegt æti og því óþarfi að brauðfæða þá en mávurinn leitar í brauðið og um leið kríuungana.

„Hann étur eggin, hann étur ungana og núna eru menn að segja að hann sé að éta unga sem orðnir eru hálffleygir og það finnst okkur auðvitað óskaplega dapurlegt," segir Soffía. Þótt aldrei verði hægt að útrýma mávinum megi sporna við ágangi hans með því að draga hann ekki að með brauðgjöfum á meðan krían og aðrir fuglar eru að koma upp ungum á legg. Fjölmörg vitni séu að því þegar mávurinn ræðst á kríuungana.

„Já, það hafa verið teknar myndir af því út á golfvelli og menn kvarta undan því þar að þeir hafi séð þetta gerast fyrir framan nefið á þeim. Þar ræðst mávurinn á unga og hakkar þá í sig þarna á golfvellinum. Þeir svífast einskis og mönnum finnst þetta vera miklu meiri og skæðari ágangur en fyrri ár," segir Soffía.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×