Íslenski boltinn

Valur hefur áhuga á Grétari Sigfinni

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Kristinn fagnar bikarmeistaratitlinum með Gary Martin síðastliðið sumar.
Kristinn fagnar bikarmeistaratitlinum með Gary Martin síðastliðið sumar. Mynd/Daníel
Kristinn Kjærnested segir að Valur hafi sett sig í samband við KR-inga til að kanna stöðu Grétars Sigfinns Sigurðarsonar.

Grétar Sigfinnur sagði í samtali við Vísi í dag að honum hafi verið tilkynnt að hann væri kominn aftarlega í goggunarröðina og að honum væri frjálst að finna sér nýtt félag.

„Valsararnir höfðu samband við okkur á mánudag. Þá fóru þjálfarar að skoða stöðu Grétars og mátu það þannig að það væri best að hleypa honum í viðræður við Val," sagði Kristinn við Vísi en hann er formaður knattspyrnudeildar KR.

„Hann fékk leyfi til þess hjá okkur í gær. En ég held að hann hafi ekki enn rætt við Valsarana."

Kristinn segir að það hafi ekki borist í tal að leyfa Grétari að fara annað fyrr en fyrirspurnin hafi borist frá Val. „Boltinn byrjaði ekki að rúlla fyrr en þá," sagði Kristinn.

Grétar lýsti óánægju sinni í viðtalinu á Vísi fyrr í dag en Kristinn segir að félagið hafi komið heiðarlega fram. „Þegar fyrirspurn barst í leikmann á þessum aldri þá tókum við fagmannlega á málinu. Niðurstaðan var að stóla frekar á aðra leikmenn."

„Það er þó alls ekki verið að henda honum út úr félaginu. Auðvitað hefur þetta komið honum á óvart eins og mörgum öðrum en við áttum fínan fund með honum í dag. Hann mun sjálfsagt líta í kringum sig og taka svo ákvörðun."

Kristinn ítrekar að Grétari sé frjálst að vera áfram í KR og berjast fyrir sínu sæti. „En í ljósi þess að við höfum fengið Andra [Ólafsson] og þess háttar er staða hans í liðinu breytt."

Brynjar Björn Gunnarsson hefur verið sterklega orðaður við KR en Kristinn getur ekki staðfest komu hans. „Ég vona eins og allir KR-ingar að hann komi. Það ætti að skýrast á allra næstu dögum. Það er ekki öruggt enn," sagði Kristinn.


Tengdar fréttir

Grétars ekki óskað hjá KR

Grétar Sigfinnur Sigurðarson er líklega á leið frá KR. Honum var tilkynnt í gær að þjálfarinn Rúnar Kristinsson vilji frekar nota aðra leikmenn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×