Innlent

Ríkið hækkar verð á áfengi, bensíni og vegabréfum

Jóhanna Margrét Einarsdóttir skrifar
það verður heldur dýrara að fylla á bílinn á nýju ári en því gamla.
það verður heldur dýrara að fylla á bílinn á nýju ári en því gamla.
 „Það eru minni hækkanir hjá ríkinu um þessi áramót en oft áður. Venjan hefur verið sú að hækka gjaldkrána um verðbólgu liðins árs og það hefur viðhaldið verðbólgunni,“ segir Jón Bjarki Bentsson hagfræðingur hjá Greiningardeild Íslandsbanka.

Jón Bjarki segir að það verði lítilsháttar hækkun á vístölu neysluverðs í janúar í kjölfar gjaldskrárhækkana um áramót.

Hann bendir á að ekki sé að fullu ljóst hverjar hækkanir ríkisins verða um áramótin því í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar í tengslum við kjarasamninga segi að við samþykkt þeirra verði endurskoðaðar til lækkunar vissar breytingar á gjöldum sem samþykktar hafa verið í tengslum við afgreiðslu fjárlaga ársins 2014 til að stuðla að því að verðlagsáhrif sem af þeim leiði verði minni en ella og innan verðbólgumarkmiða Seðlabanka Íslands.

Verðbólgumarkmið bankans eru 2,5 prósenta verðbólga.

Ríkið hækkar vörugjald á bensíni og olíugjald á díselolíu um þrjúprósent um áramót.

Þeir sem aka á díselbifreiðum verða strax varir við hækkunina því hún fellur á útsöluverð en vörugjaldið á leggst á innflutningstolla af bensíni.

Það gæti því verið komið fram í janúar þegar verð á bensíni hækkar, hvenær hækkunin kemur til framkvæmda fer eftir birgðastöðu olíufélaganna. Þegar hækkanirnar hafa að fullu komið til framkvæmda, má ætla að bensín hækki um 2,50 krónur lítrinn og díselolían um 2.10 krónur. „Þegar ríkið hækkar gjöld hjá sér skilar það sér í hækkuðu olíu- og bensínverði,“ segir Jón Halldórsson framkvæmdastjóri hjá Olís

Það er fleira sem hækkar um áramótin.Ríkið hækkar áfengis og tóbaksgjald um þrjú prósent. „Birgjar ráða verði til okkar og því verður að hafa í huga að ekki er víst að öll hækkun á sköttum komi strax fram í verði nú um áramótin,“ segir Sigrún Ósk Sigurðardóttir, aðstoðar forstjóri ÁTVR. En ef miðað er við að hækkunin komi til framkvæmda hækkar verð á algengri tegund af bjór um sex krónur og léttvínsflaska hækkar um 120 til 130 krónur, og flaska af algengum tegundum af sterku víni hækkar álíka mikið.

Af öðrum hækkunum sem ríkið ákvarðar má nefna að vegabréf hækka um tvö þúsund krónur. Vegabréf kostar nú 8.200 en kostar eftir áramót 10.200. Útvarpsgjald hækkar úr 18.800 krónum í 19.400 eða um 800 krónur. Sóknargjöld hækka um nokkrar krónur eða úr 8.736 krónum, í 9000 þúsund krónur.

Innritunargjöld í ríkisháskóla hækkar um 15 þúsund krónur, úr 60 þúsundum í 75 þúsund.


Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.