Lífið

Prjónaði áfangastaði Icelandair

Lilja Katrín Gunnarsdóttir skrifar
„Sagafilm og Íslenska auglýsingastofan höfðu samband við mig út af þessu verkefni. Bobby Breiðholt hjá Íslensku auglýsingastofunni fékk þá hugmynd að prjóna jólaauglýsingu Icelandair og það vantaði manneskju til að sjá um prjónið,“ segir prjónahönnuðurinn Sonja Bent um hvernig það kom til að hún fékk veigamikið hlutverk í nýjustu jólaauglýsingu Icelandair.

„Upphafleg pæling var að gera auglýsingu sem væri prjónuð ramma fyrir ramma en það hefði þýtt að ég hefði þurft að prjóna átta hundruð ramma. Við fengum frekar stuttan fyrirvara og enginn gerði sér fyllilega grein fyrir því hvað þetta var mikið mál enda hefur aldrei verið gerð auglýsing sem þessi á Íslandi svo ég viti. Ég fundaði með Íslensku auglýsingastofunni og framleiðslufyrirtækinu Sagafilm og við fundum leið til að gera þetta eins og við vildum hafa þetta,“ segir Sonja. Hún fékk tíu daga til að undirbúa sig fyrir tökur og prjóna heilan helling.

Guðjón Jónsson leikstýrði auglýsingunni ásamt Emil Ásgrímssyni. Hér er Guðjón ásamt Sonju.
„Hugmyndin var að áfangastaðir Icelandair yrðu prjónaðir, eins og Big Ben og Eiffel-turninn. Þetta átti að líta út eins og þetta væri handprjónað en ég hefði aldrei getað handprjónað þetta allt á þeim tíma sem ég fékk. Þannig að þetta var gert í vél og var heilmikil útfærsla. Bobby Breiðholt teiknaði landslagið sem ég svo útfærði í prjón. Allt landslagið var sex til sjö metra renningur sem var settur saman úr sex eða sjö bútum. Allur grunnurinn var vélprjónaður en síðan var öll hreyfing handsaumuð ofan í grunninn, lykkju fyrir lykkju, í tökum. Þar af leiðandi var mjög lítil eftirvinnsla eins og lagt var upp með.

Auglýsingin var tekin upp á tveimur dögum.
Ég þurfti að safna saman liði til að hjálpa mér að klára þetta. Aðalmanneskjan með mér var Þóra Einarsdóttir, algjör prjónasnillingur sem er búin að kenna mér mikið í gegnum árin. Síðan fékk ég móður mína, Sæunni Mörtu Sigurgeirsdóttur, bróderímeistarann Ríkeyju Kristjánsdóttur og vinkonu mína, Kolbrúnu Bergmann Franzdóttur, með mér í lið. Án þeirra hefði ég ekki getað þetta. Við vöktum allan sólarhringinn fyrir fyrsta tökudag og vorum allar sem ein algjörlega ósofnar,“ segir Sonja en tvo daga tók að taka upp auglýsinguna.

„Þetta voru tveir rosalegir tökudagar. Fyrsta tökudeginum fylgdi ákveðin sigurtilfinning því þetta tókst og við vorum ekki viss hvort við gætum þetta. Við vorum öll hrikalega stressuð þessa daga út af því hvort þetta næðist. Ég var með hjartað í buxunum allan daginn. Seinni tökudaginn vorum við 23 klukkutíma samfleytt í tökum. Það var algjört brjálæði. Það var samt fáránlegt hvað valdist góður hópur til að vinna þetta verkefni og það gekk allt svo smurt. Ótrúleg samvinna allra aðila.“

Örn Sveinsson, yfirmaður eftirvinnslu hjá Sagafilm, og Emil, annar leikstjóri auglýsingarinnar.
Eftir mikið streð var einstaklega skemmtilegt að sjá auglýsinguna í sjónvarpinu að sögn Sonju.

„Ég hef aldrei séð verkefni mitt lifna við og það yljar manni um hjartarætur. Ég er voðalega montin af þessu ef ég segi alveg eins og er. Ég hlakka til að tækla næsta verkefni og það væri gaman að takast á við eitthvað sem er enn meira krefjandi.“

Sonja er búin að vinna að síðustu tveimur þáttaröðum í búningadeild Latabæjar og aðstoðar Maríu Ólafsdóttur, búningahönnuð Latabæjar.

„Bæði María og Magnús Scheving eru mjög kröfuhörð og vita nákvæmlega hvað þau vilja. Stundum hef ég engan tíma til að klára hugmyndir og þarf að rjúka á vinnustofuna og prjóna fram undir morgun. Ég er brjálæðislega vel skóluð eftir að hafa unnið með Maríu því hún fær klikkaðar hugmyndir og það þarf helst að útfæra þær í gær. Í sumar var tröll í einum þættinum og það var ákveðið að það yrði í einhverju prjónuðu. Prjónið þurfti að vera mjög stórt því þetta var svo stór fígúra. Við fundum ekki nógu stóra prjóna þannig að ég prjónaði bara með höndunum og fékk þannig stóra, flotta lykkju. Ég gerði tröllakjól úr áttföldum Bulky-lopa sem er massíft þykkt. Ég gat ekki tekið upp símann eða gert nokkurn skapaðan hlut því ég var föst þangað til ég kláraði stykkið. Í tengslum við prjón hefur ekkert stöðvað mig enn þá.“

Bobby Breiðholt spáir og spekúlerar.
Sonja segist hafa lítinn frítíma en prjón er ástríða hennar í lífinu.

„Ég hef mestan áhuga á prjóni og ég held áfram að bæta við mig þekkingu því ég hef svo mikinn áhuga. Ég er alltaf að gera tilraunir og það er það sem gerir það að verkum að ég er orðin frekar klár í prjóni og fljót að vinna og búa til uppskriftir. Ég er fljót að útfæra alls konar hugmyndir og mér finnst það ferlega gaman. Ég tek meira að segja upp prjónana þegar ég er að horfa á sjónvarpið eða fer í bústað. Þetta er einhvers konar prjónageðveiki.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.