Lífið

Smellir af þegar fólk er hætt að fylgjast með

"Ég fer aldrei neitt án þess að vera með myndavélina með mér.“
"Ég fer aldrei neitt án þess að vera með myndavélina með mér.“ MYND/EINAR SNORRI
„Boston er bara svo flottur staður – þangað kemur svo skemmtilegt fólk. Listamenn og bóhem. Svo er ég góður vinur hennar Siggu sem á staðinn, og fékk leyfi hjá henni til að sniglast um með myndavélina,“ segir Brynjar Snær Þrastarson ljósmyndari sem gefur út ljósmyndabókina Boston hinn 10. desember næstkomandi. Þar er að finna hundruð ljósmynda af gestum á skemmtistaðnum Boston undanfarin ár.

„Þessi mynd var tekin á nýársfagnaði Boston árið 2010 ef ég man rétt. Þarna sést Sigga, eigandinn og góð vinkona mín, í faðmlögum við fastakúnna.“MYND/BRYNJAR SNÆR
Kveikjan að bókinni var ný myndavél. „Ég hef verið að gera þetta, með pásum, í þrjú eða fjögur ár. Það er engin mynd uppsett í bókinni. Ég reyni oftast að bíða með að taka mynd þar til fólk er alveg hætt að fylgjast með því sem ég er að gera,“ segir Brynjar. „Ljósmyndunin er bæði aðalstarf og aðaláhugamál. Ég fer aldrei neitt nema vera með vélina með mér,“ segir Brynjar.

Ómar Ragnarsson „Ómar var þarna að dæma í Tom Selleck-mottukeppni sem er haldin árlega á Boston.“
Bókin er tileinkuð föðurbróður Brynjars, Guðmundi Páli Ólafssyni heitnum. „Það er gert af virðingu við góðan dreng. Guðmundur var mjög hrifinn af þessari bók þegar hann sá hana hjá mér fyrst og tók hana með sér upp í Odda og á fleiri staði til að hjálpa mér að koma þessu af stað. Síðan höfum við verið í smá kapphlaupi um hvor okkar nær að prenta á undan, en hann er að gefa út bókina Vatnið. Þannig að við erum búnir að vera á sitt hvorri prentvélinni, hlið við hlið. Svo þegar ég var búinn að prenta á undan honum, fyrir um það bil þremur vikum, kom upp einhver galli í prentuninni sem hefur ekki gerst í áratug. Svo það þurfti að prenta bókina aftur – ég hef frænda minn grunaðan um græsku, þar hefur Guðmundur eitthvað verið að fikta – en nú erum við settir á sama dag,“ segir Brynjar og segist hlakka til fæðingarinnar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.