Innlent

Hækkunum Strætó frestað

Fanney Birna Jónsdóttir skrifar
Strætó bs. ætlaði að hækka gjaldskrána um sjö prósent.
Strætó bs. ætlaði að hækka gjaldskrána um sjö prósent. Mynd/Vilhelm
Stjórn Strætó bs. hefur ákveðið að fresta fyrirhuguðum gjaldskrárhækkunum sem áttu að koma til framkvæmda 1. desember. Ákvörðun verður tekin um hvort af þeim verður þegar fjárlög liggja endanlega fyrir og þannig hvert framlag ríkisins til almannasamgangna verður.

Í tilkynningu frá Strætó kemur fram að samkvæmt áætlun eigi að renna 956 milljónir króna frá ríkinu til almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu árið 2014, út frá samningi ríkisstjórnarinnar og Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu um eflingu almannasamgangna.

Fjárlagafrumvarpið gerir hins vegar aðeins ráð fyrir 822,6 milljónum króna í málaflokkinn, en þar munar um 133 milljónum króna.

Stjórn Strætó bs. mun taka ákvörðun um hvort gjaldskrám verði breytt þegar fyrir liggur hvert framlag ríkisins verður í fjárlögum 2014 en til stóð að hækka gjaldskrána að meðaltali um 7% frá og með 1. desember en því hefur nú verið frestað.

Bókun stjórnar Strætó bs., samþykkt á stjórnarfundi 29. nóvember 2013:

Stjórnin samþykkir að fresta áður samþykktri gildistöku gjaldskrárhækkunar og vísa málinu til frekari umfjöllunar þegar niðurstaða fjárlaga um framlag ríksins vegna samnings um eflingu almenningssamgangna á höfurborgarsvæðinu liggur fyrir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×