Innlent

Máttu ekki borga pabba og mömmu

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Hjónum tókst að skipta á hjólhýsi og fellihýsi en það dugði ekki til.
Hjónum tókst að skipta á hjólhýsi og fellihýsi en það dugði ekki til. Fréttablaðið/Valli
Hjón sem voru í greiðsluaðlögun voru tekin úr henni eftir að hafa greitt tæplega 600 þúsund króna skuld við foreldra annars þeirra.

Maðurinn er trillusjómaður og konan vinnur sem gjaldkeri í hlutastarfi og auk þess við skúringar. Samkvæmt upplýsingum í úrskurði kærunefndar greiðsluaðlögunarmála skulda hjónin nú tæpar 97 milljónir króna. Þau hafi verið í greiðsluskjóli frá því á árinu 2010. Ónógar upplýsingar hafi borist um tekjur þeirra og ráðstöfun fjárins. Á endanum svipti umboðsmaður skuldara þau greiðsluaðlöguninni.

Í viðleitni til að draga saman seglin tókst hjónunum meðal annars að skipta út hjólhýsi sínu fyrir fellihýsi.

Fram kemur að hjónin hafi borgað foreldrum annars þeirra tæplega 600 þúsund króna skuld jafnvel þótt þau hafi vitað að það væri ekki rétt gagnvart öðrum kröfuhöfum.

„Þau hafi talið sig verða að greiða foreldum sínum þar sem þau hafi skuldað þeim og liðið illa yfir skuldinni,“ segir kærunefndin sem tók málið til úrskurðar að beiðni hjónanna og staðfesti ákvörðun umboðsmanns skuldara.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×