Innlent

Heldur ræður fyrir kóngafólk og forstjóra

Ólöf Skaftadóttir skrifar
Magnús er vinsæll fyrirlesari, en hann hefur um tveggja áratuga reynslu af því að halda ræður og fyrirlestra um allan heim.
Magnús er vinsæll fyrirlesari, en hann hefur um tveggja áratuga reynslu af því að halda ræður og fyrirlestra um allan heim. WOBI/SCHEVING
Auk þess að sinna starfi sínu sem forstjóri Latabæjar er Magnús Scheving vinsæll fyrirlesari og líklega eftirsóttasti íslenski fyrirlesarinn í útlöndum.

Magnús er reglulega pantaður á ráðstefnur þar sem fjallað er um ýmislegt sem viðkemur viðskiptum og leiðtogahæfni. Fyrirlestrana sitja forstjórar, markaðsstjórar og aðrir stjórnendur fyrirtækja.

Hann hefur haldið fyrirlestra og verið á pallborðum með þekktum einstaklingum á borð við Colin Powell, fyrrverandi varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, og Paul Grugman, Nóbelsverðlaunahafa í hagfræði. Þá hefur Magnús talað fyrir þjóðarleiðtogum og kóngafólki, til dæmis Filipusi, ríkisarfa Spánar, á góðgerðarsamkomu þar í landi. Nýlega kom hann svo fram á ársþingi hjartalækna í Róm – svo verkefnin eru fjölbreytt.

Magnús er nýkominn heim frá Noregi og Mexíkó. Þangað var hann fenginn til að halda hvetjandi ræður á ráðstefnum og í háskólum um markmiðasetningu.

„Markaðssamtök Noregs báðu mig um halda fyrirlestur á árlegri ráðstefnu sinni eftir að hafa horft á mig tala með Seth Godin á ráðstefnu ÍMARK á Íslandi,“ segir Magnús.

„Þá lá leiðin suður til Mexíkó þar sem ég talaði meðal annars á leiðtogaráðstefnu fyrir framan tvö þúsund yfirmenn í viðskiptalífinu,“ segir Magnús en ráðstefnan í Mexíkó er sú allra stærsta í Suður-Ameríku og margir heimsþekktir einstaklingar stíga þar á svið.

„Í þetta sinn talaði ég ásamt Felix Baumgartner,“ segir Magnús, en Baumgartner vakti athygli heimsbyggðarinnar þegar hann rauf hljóðmúrinn í frjálsu falli úr 39 kílómetra hæð í fyrra.

Þaðan hélt Magnús áfram ferð sinni um Mexíkó og hélt meðal annars ræður fyrir starfsmenn stórrar hótelkeðju þar í landi og hjá einum virtasta viðskiptaháskóla í Mexíkó, Monterey School of Technology.

Í næstu viku heldur Magnús til Rússlands þar sem hann á að tala fyrir fréttamenn og sjónvarpsfólk þar í landi og eftir áramót er fyrirlestur í Washington DC í Bandaríkjunum á döfinni, sem er liður í samstarfi Magnúsar og Michelle Obama – að gera Ameríku heilsusamlegri.

Aðspurður segist Magnús ekki getað annað eftirspurn. „Ég hef gert þetta í tuttugu ár og undanfarin fimm ár hafa þetta verið um tíu ráðstefnur á ári – meira kemst nú ekki fyrir í dagskránni hjá mér vegna anna við annað,“ segir Magnús. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×