Innlent

Skólamáltíðir hækka til að mæta hráefniskostnaði

Erla Björg Gunnarsdóttir skrifar
Helga Sigurðardóttir gæðastjóri Reykjavíkurborgar segir borgina vilja bjóða upp á gæðamat í skólunum.
Helga Sigurðardóttir gæðastjóri Reykjavíkurborgar segir borgina vilja bjóða upp á gæðamat í skólunum. Aðsend mynd
Skólamáltíðir hækka um þúsund krónur á næsta ári samkvæmt nýrri gjaldskrá Reykjavíkurborgar fyrir árið 2014 og munu kosta 7.600 krónur á mánuði.

Hækkunin á bæði við um leikskóla og grunnskóla og er sögð vera til að mæta hækkun á hráefniskostnaði.

„Hráefniskostnaður frá árinu 2008 hefur hækkað um 45-85 prósent og við þurfum að mæta þessari hækkun ef við ætlum að bjóða upp á gæðamat,“ segir Helga Sigurðardóttir, gæðastjóri Reykjavíkurborgar en foreldrar hafa sagt í foreldrakönnunum að þeir vilji auka gæði skólamáltíða. 

Hún segir gæðastýringu vera mikilvæga og með nýju kerfi sem verið er að innleiða í borginni munu máltíðirnar vera næringarreiknaðar.

Misjafnt er hvað sveitarfélög greiða skólamáltíðir mikið niður. Reykjavíkurborg niðurgreiðir um fimmtíu prósent leikskólamáltíða og um fjörutíu prósent af mat í grunnskólum. Með nýrri gjaldskrá mun máltíðin kosta 380 krónur. Til samanburðar fá börnin í grunnskólanum í Vogum á Vatnleysuströnd ókeypis máltíð, í Reykjanesbæ kostar máltíðin 290 krónur, í Kópavogi 415 krónur og í grunnskólanum á Ísafirði 425 krónur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×