Íslenski boltinn

Ráðning Gulla skref í rétta átt

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Jóhannes vill heyra hugmyndir nýs þjálfara um framtíðina hjá ÍA.
Jóhannes vill heyra hugmyndir nýs þjálfara um framtíðina hjá ÍA. mynd/guðmundur bjarki
„Ég er að meta stöðuna og átta mig á því að við séum fallnir. Nú er búið að ráða nýjan þjálfara og farið að skipuleggja framtíðina. Ég ætla að fylgjast með því hvað menn vilja gera og ræða svo málin,“ segir Jóhannes Karl Guðjónsson, leikmaður ÍA, en mikið er spáð í hvort hann verði áfram í herbúðum Skagamanna næsta sumar.

Hann er nýkominn heim úr fríi og hefur því ekki enn rætt við nýja þjálfarann, Gunnlaug Jónsson.

„Ég á ár eftir af samningi mínum þannig að ég gæti vel spilað í 1. deildinni. Það verður bara að koma í ljós. Ég skil vel að ÍA vilji ekki sleppa mér enda að byggja upp nýtt lið og þeir segja mig vera mikilvægan.“

Jóhannes segir að þegar hann kom til ÍA hafi markið verið sett hátt en allar þær áætlanir séu fallnar um sjálfar sig.

„Við þurfum að fara í naflaskoðun og athuga af hverju við féllum og skoða hvað við höfum verið að gera vitlaust. Við verðum að byggja Skagaliðið upp til framtíðar en ekki bara tjalda til einnar nætur. Ég hef ákveðnar hugmyndir um hvernig það eigi að gerast og ég er að vona að með nýjum þjálfara breytist hlutirnir.“

Jóhannes segist stefna á að setjast niður með Gunnlaugi þjálfara á næstunni og heyra hver hans framtíðarsýn er.

„Vonandi getum við gert það sem er best til framtíðar fyrir ÍA. Það sem skiptir mig mestu máli er hvernig menn sjá framtíðina fyrir sér á Skaganum. Mér líst vel á að ÍA hafi ráðið Gulla og skref í rétta átt að mínu mati.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×