Innlent

Kennitöluflakk kostar tugi milljarða á ári

Aðstoðarframkvæmdastjóri ASÍ segir samfélagslegt tjón vegna kennitöluflakks fyrirtækja skiptir tugum milljarða á ári
Aðstoðarframkvæmdastjóri ASÍ segir samfélagslegt tjón vegna kennitöluflakks fyrirtækja skiptir tugum milljarða á ári Fréttablaðið/GVA
„Samfélagslegt tjón vegna kennitöluflakks fyrirtækja skiptir tugum milljarða á ári þannig að það er svo sannarlega mikið vandamál,“ segir Halldór Grönvold, aðstoðarframkvæmdastjóri ASÍ, sem segir flakkið bitna á launafólki, heiðarlegum fyrirtækjum og samfélagslegum sjóðum.

„Við höfum sýnt fram á að það má áætla að tjón af kennitöluflakki sé yfir 50 milljarðar á ári, sem er 10 milljörðum meira en árlegur rekstur Landspítalans,“ segir Halldór.

Sambandið lagði í gær fram tillögu í sextán liðum um aðgerðir til að sporna við þessu. ASÍ telur nauðsynlegt að taka upp strangari reglur varðandi hæfi einstaklinga til að vera í forsvari fyrir félög með takmarkaða ábyrgð. Takmörk verði sett á nafnabreytingar félaga og þá er lagt til að þeir sem ítrekað gerast sekir um kennitöluflakk missi hæfi tímabundið til að stofna eða vera í forsvari fyrir hlutafélög eða einkahlutafélög.

Halldór segir kennitöluflakk meira vandamál hér á landi en annars staðar, sem endurspeglist meðal annars í þeim fjárhæðum sem um ræðir sem og þeirri staðreynd að á Íslandi eru skráð um 30 þúsund einkahlutafélög en í Danmörku, sem er mun fjölmennari þjóð, séu þau 80 þúsund.

Halldór segir mikilvægt að stjórnvöld grípi til aðgerða til að koma í veg fyrir kennitöluflakk. -




Fleiri fréttir

Sjá meira


×