Lífið

Hjartasteinn hlaut verðlaun í Hollandi

Ólöf Skaftadóttir skrifar
Anton Máni og Guðmundur Arnar taka á móti fimm þúsund evra sigurlaunum á samsölumarkaði í Hollandi.
Anton Máni og Guðmundur Arnar taka á móti fimm þúsund evra sigurlaunum á samsölumarkaði í Hollandi. Mynd/Úr einkasafni
„Við fórum á samframleiðslumarkað í Hollandi þar sem við kynntum verkefnið í leit að mögulegum meðframleiðendum og söluaðilum. Myndin okkar var eina alþjóðaverkefnið sem hlaut verðlaun á markaðnum,“ segir Anton Máni Svansson, framleiðandi myndarinnar Hjartasteins, í leikstjórn Guðmundar Arnars Guðmundssonar.

Kvikmyndin hlaut fimm þúsund evrur til eftirvinnslu myndarinnar í verðlaun.

„Við höfum þegar fengið framleiðsluvilyrði frá Kvikmyndamiðstöð Íslands og erum því nú að leita eftir erlendu fjármagni til að klára fjármögnun myndarinnar. Það er meðal annars gert á svona mörkuðum,“ útskýrir Anton Máni.

„Á þessum markaði fengum við aðeins fimm mínútur til þess að kynna verkefnið fyrir fullum sal af fagfólki. Svo fengum við fundi með hinum ýmsu framleiðendum og söluaðilum. Að þessu öllu loknu var haldin verðlaunaafhending þar sem við hlutum svokölluð Warnier Posta-verðlaun,“ segir Anton Máni.

„Þessi verðlaun eru þýðingamikil fyrir okkur og munu hiklaust hjálpa okkur með framhaldið,“ bætir Anton Máni við.

Hann segir það verulega hvetjandi að fá svona staðfestingu strax í byrjun fjármögnunarferlisins.

„Eini efniviðurinn sem við erum með í dag er handritið en það er líka hreint út sagt frábært handrit. Núna erum við líka klárlega komnir með gæðastimpil á verkefnið í stærra samhengi,“ segir hann jafnframt.

Hjartasteinn er fyrsta kvikmynd leikstjórans og handritshöfundarins Guðmundar Arnars Guðmundssonar í fullri lengd en hann hefur áður vakið mikla athygli fyrir stuttmyndir sínar. Þeir félagar stefna á að hefja tökur á myndinni síðla sumars á næsta ári.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.