Lífið

Stærsta fréttastofa landsins

"Þetta hefur tekið tvo til þrjá mánuði, nú er rykið að setjast og fólk að finna sína fjöl,“ segir Mikael.
"Þetta hefur tekið tvo til þrjá mánuði, nú er rykið að setjast og fólk að finna sína fjöl,“ segir Mikael.
Ráðist var í sameiningu fréttastofanna með það að markmiði að draga úr tvíverknaði og nýta betur krafta þeirra rúmlega hundrað starfsmanna sem koma að fréttum miðlanna.

„Þetta hefur tekið tvo til þrjá mánuði, nú er rykið að setjast og fólk að finna sína fjöl. Á þessum skamma tíma hefur okkur tekist að búa til stærstu fréttastofu landsins. Þetta hefur gengið ótrúlega vel. Vonum framar. Fréttamenn eru reyndar þeirra gerðar að þeir kunna að koma að auðu blaði. Hver dagur er öðrum frábrugðinn og það er meðal annars það sem gerir starf fréttamanns að skemmtilegasta starfi sem fyrir finnst,“ segir Mikael.

Hann segir magnað að fylgjast með fólkinu sem starfar á fréttastofu Stöðvar tvö. „Þú finnur varla vinnustað þar sem unnið er á meiri hraða. Fréttamenn mæta á morgnana með allt undir og hlutirnir eru fljótir að breytast. Á fréttastofu Stöðvar 2 vinnur samheldinn hópur sem er vanur að vinna undir gríðarlegri pressu og standa skil á sínu að kvöldi.“

Fréttir.
Fréttastofa Stöðvar 2 býr að kröftum fagfólks og þar hefur verið lagt upp úr því að blanda saman fólki með reynslu og nýju hæfileikafólki. „Fjölmiðlar hafa laðað til sín margt það besta og kraftmesta fólk sem byggir landið; lifandi og brennandi af áhuga á umhverfi sínu.“

Sameinuð fréttastofa hefur það í för með sér að margir fréttamenn vinna jöfnum höndum fréttir fyrir ólíka miðla. „Á fréttastofunni er litið svo á að það séu vinnubrögðin og fagleg sjónarmið blaðamennskunnar sem ráða inntaki sögunnar hverju sinni, en ekki umbúðirnar sem slíkar. Þó verður vitaskuld að taka tillit til þess að form og inntak haldist í hendur. Það er ekki síst þar sem fréttamenn þurfa að nýta hæfileika sína og reynslu,“ segir Mikael.

En munum við sjá einhverjar breytingar á fréttunum í vetur?

„Við erum þessi misserin að taka stökk fram á við hvað tæknina varðar. Ráðist hefur verið í umtalsverðar fjárfestingar á nýjum hugbúnaði og tækjum. Þá höfum við nú aðgang að fyrsta útsendingarbílnum sem sendir út í HD. Með tilkomu hans geta áhorfendur átt von á fleiri beinum útsendingum í fréttum Stöðvar 2 og að fá fréttirnar í auknum mæli beint í æð.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.