Innlent

Meintir gerendur á Stuðlum 13 og 17 ára

Valur Grettisson skrifar
Stuðlar.
Stuðlar.
„Öryggi barna er fulltryggt á Stuðlum,“ segir Bragi Guðbrandsson, forstöðumaður Barnverndarstofu.

Starfsemi Stuðla, meðal annars neyðarvistunin, verður með óbreyttum hætti þrátt fyrir að kynferðisbrot á deildinni hafi verið kært til lögreglu um helgina.

Tveir piltar, annar þrettán ára og hinn sautján, eru grunaðir um að hafa brotið kynferðislega á fimmtán ára dreng á meðan þeir voru í neyðarvistun á heimilinu. Talið er að brotin hafi átt sér stað með nokkru millibili sama kvöldið.

Bragi hefur þegar óskað eftir því við velferðarráðuneytið að gerð verði sjálfstæð úttekt á atburðinum. „Í kjölfarið verður svo farið yfir starfsemina í heild sinni,“ segir Bragi.

Búið er að boða til fundar með starfsmönnum Stuðla og forstöðumanni en sá fundur mun fara fram í dag. „Það er engin ástæða til þess að hafa áhyggjur af deildinni, allir starfsmenn brugðust rétt við að okkar mati,“ segir Bragi en lögreglan rannsakar málið.

Bragi segir það mikilvægt að deildin haldi trausti sínu en neyðarvistunin á Stuðlum er eina úrræði sinnar tegundar hér á landi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×