Innlent

Kærður fyrir að aka á björgunarsveitarmann á menningarnótt

Hanna Ólafsdóttir skrifar
Daníel Eyþór Gunnlaugsson
Fulltrúi svæðisstjórnar björgunarsveita höfuðborgarsvæðisins segir atvikið hafa verið kært til lögreglu.
Daníel Eyþór Gunnlaugsson Fulltrúi svæðisstjórnar björgunarsveita höfuðborgarsvæðisins segir atvikið hafa verið kært til lögreglu.
Ekið var á björgunarsveitarmann á menningarnótt af ökumanni sem var ósáttur við að komast ekki leiðar sinnar vegna lokaðra gatna.

Atvikið átti sér stað um miðjan dag á horni Garðastrætis og Vesturgötu með þeim afleiðingum að björgunarsveitarmaðurinn þurfti að leita á slysadeild vegna áverka. Kallað var til lögreglu og mun málið vera í eðlilegum farvegi.



Daníel Eyþór Gunnlaugsson, fulltrúi svæðisstjórnar björgunarsveita höfuðborgarsvæðisins, segir þetta í fjórða skiptið á undanförnum árum sem ekið er á á björgunarsveitarmann við störf sín á menningarnótt.

„Því miður hefur það gerst að fólk virðir ekki þær lokanir sem við stöndum í. Í þessu tilviki var ökumaður á miðjum aldri ósáttur við okkar störf og ók beint framan á björgunarsveitarmann sem stóð við vegahindrun á meðan annar björgunarsveitarmaður stóð og ræddi við ökumanninn við bílinn. Kallað var til lögreglu en til marks um óskammfeilni ökumannanna snéri farþegi bifreiðarinnar síðar á staðinn og hélt áfram að ausa úr skálum reiði sinnar við björgunarsveitafólk.“



Daníel Eyþór segir atkvikið ekki kalla á breytt vinnubrögð björgunarsveita sem starfi í umboði lögreglu þessa nótt. „Við lítum málið alvarlegum augum og það er ágætt að fólk hafi það í huga að þetta er sama fólkið og leggur í sig í mikla hættu í björgunaraðgerðum allt árið um kring.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×