Innlent

Ráða hagræðingarnefnd frá flötum niðurskurði og hvetja til róttækni

Hanna Rún Sverrisdóttir skrifar
Guðmundur Steingrímsson er formaður Bjartrar framtíðar sem hvetur hagræðinganefnd til að horfa til lengri tíma.
Guðmundur Steingrímsson er formaður Bjartrar framtíðar sem hvetur hagræðinganefnd til að horfa til lengri tíma.
Björt framtíð hvetur hagræðingarnefnd ríkisstjórnarinnar til róttækni og hafnar flötum niðurskurði þar sem stofnunum sé gert að hagræða án þess að kafað sé dýpra í starfsemi þeirra.

Í bréfi þingflokksins, sem birt er hér á Vísi í dag, kemur fram að skoða þurfi vel tillögur innlendra og erlendra aðila um hvernig megi bæta nýtingu fjár í íslensku samfélagi.

Björt framtíð telur miklar skattalækkanir og skuldaniðurfellingar með fé sem að öðrum kosti gæti gagnast ríkissjóði vafasamar og hvetur flokkurinn nefndina til að skoða vel fórnarkostnað með slíkum aðgerðum.

Flokkurinn bendir á að sameining stofnana ríkisins í færri en stærri rekstrareiningar, sem bjóða upp á samræmda þjónustu um land allt, sé forsenda fyrir breyttu skipulagi og uppbyggingu verkferla, með áherslu á ábyrgð og skýra verkaskiptingu. Þó slíkt geti falið í sér kostnað í upphafi þá sé það hagræðing til lengri tíma litið.

Flokkurinn hvetur nefndina til þess að horfa til lengri tíma, bæði í tekjum og útgjöldum ríkisins. Björt framtíð telur að með því geti stofnanir samfélagsins gert langtímaáætlanir og þurfi ekki að vera háðar óvissu fjárlaga hvers árs.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×