Lífið

Bleyjur fyrir regnbogarassa

Marín Manda skrifar
Elísabet Ósk Jónsdóttir með litla son sinn.
Elísabet Ósk Jónsdóttir með litla son sinn.
Umhverfisvænar, litríkar lúxustaubleyjur eru komnar í tísku fyrir krílin en þær fást í netversluninni Regnbogarass.com.

„Ég fór í Hússtjórnarskólann fyrir tíu árum og hef alltaf verið svolítill dundari í höndunum. Hugmyndin að bleyjunni er búin að vera svolítinn tíma í undirbúningi en ætli það sé ekki umhverfisnördinn í mér sem dró mig að þessu,“ segir Elísabet Ósk Jónsdóttir, eigandi Regnbogarass á Akranesi.

Þegar Elísabet Ósk Jónsdóttir var ófrísk fór hún að lesa sér til um taubleyjur og segist þá hafa dregist inn í heim sem varð til þess að hún settist við saumavélina og saumaði margnota taubleyjur sem hún kallar hybrid fitted. 

Bleyjurnar eru gerðar að bandarískri fyrirmynd og er tegundin ný á Ísland. Bleyjan er ekki vatnsheld en hún er með vatnsfráhrindandi flísefni sem andar og endist eins og hún á að gera þessa 2-3 tíma. Elísabet Ósk segir að það sé sniðugt að eiga um 15 stk. af bleyjum til skiptanna en bleyjurnar stækka með barninu þannig að hægt er að nota þær allt bleyjutímabilið.

Bleyjurnar fást í mörgum skemmtilegum litum.
„Það eru margir sem rétt kynna sér þetta og sjá verðið og hætta við en ég reiknaði lauslega út kostnaðinn miðað við að kaupa bleyjur út í búð. Miðað við það að eiga 15 bleyjur þá borgar það sig upp á 40 vikum í stað þess að kaupa bréfbleyjur úti í búð og henda hundruðum bleyja á haugana.“

Aðspurð um nafnið á versluninni segist hún sjálf vera mjög litrík manneskja en að einnig sé hægt að finna dýpri merkingu á bak við nafnið. „Það er skemmtilegt að sjá regnboga og erfitt að komast að honum.

Það tók okkur nokkur ár að verða ólétt og við fengum hjálp til þess þannig að ég sá þetta fyrir mér þannig að nú hefðum við loksins komist að regnboganum og náð að klífa hann og endað í gullpottinum með því að eignast strákinn minn.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.