Íslenski boltinn

Réttað í máli Veigars Páls | Nær leiknum gegn Fram

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Nóg að gera Veigar Páll heimsækir kunnuglegar slóðir í Noregi á mánudaginn.
Nóg að gera Veigar Páll heimsækir kunnuglegar slóðir í Noregi á mánudaginn. Fréttablaðið/Valli
Veigar Páll Gunnarsson getur spilað með Stjörnunni gegn Fram í 16. umferð Pepsi-deildar karla á fimmtudaginn. Fram vann dramatískan sigur á Garðbæingum í bikarúrslitaleiknum á laugardaginn og því má ætla að Stjarnan hyggi á hefndir.

Talið var að Veigar Páll myndi missa af leiknum á fimmtudag vegna réttarhalda sem hófust í Noregi í gær. Þar eru Stabæk og Vålerenga, fyrrum félög Veigars Páls, sökuð um að hafa haft af franska félaginu Nancy háar fjárhæðir við söluna á íslenska framherjanum frá Stabæk til Vålerenga sumarið 2011. Nancy átti að fá helminginn af sölufé Veigars Páls sem þótti grunsamlega lágt. Forráðamenn norska félagsins neituðu allir að brögð hefðu verið í tali við söluna á Veigari fyrir dómara í gær.

Veigar þarf að bera vitni í málinu og það átti upphaflega að verða í þessari viku. Því fékkst frestað til mánudags og þannig standa málin nú. Líkur eru á því að Veigar Páll missi af viðureign Stjörnunnar og ÍA það kvöld nema frekari frestun fáist á vitnisburði framherjans. Þau mál munu skýrast í vikunni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×