Lífið

Nikka fyrir fermingarpeninginn

Hanna Ólafsdóttir skrifar
Fimur á nikkunni Þórður Marteinsson með harmonikkuna sína, sem er 57 ára af ítölskum uppruna.Fréttablaðið/Valli
Fimur á nikkunni Þórður Marteinsson með harmonikkuna sína, sem er 57 ára af ítölskum uppruna.Fréttablaðið/Valli
„Þetta er bara mjög gaman. Ég hef líka verið að spila úti í sumar og það hefur veitt mér mikla gleði og vonandi lífgað upp á stemmninguna í miðbænum,“ segir Þórður Marteinsson harmonikkuleikari en hann hefur undanfarin misseri spilað fyrir kaffihúsagesti Le Bistro á Laugaveginum.

Þórður, sem er 77 ára, segir að hann hafi gaman af því að spila fyrir gesti og gangandi og spili þá helst dægurlög og gömlu dansana.

Að sögn Þórðar hefur harmonikkuáhuginn blundað í honum síðan hann var unglingur og notaði hann meðal annars fermingarpeningana til að kaupa sína fyrstu nikku. „Ég átti þá harmonikku í fjögur ár en seldi hana síðar þegar ég fór í nám í húsasmíði. Svo leið langur tími, eða 27 ár, þangað til ég eignaðist mína næstu.“

Þórður er að mestu sjálfmenntaður í harmonikkuleik en segist hafa farið á stutt námskeið til að læra undirstöðuatriðin. Hann hefur þó komið víða fram og hefur meðal annars komið fram með Capri tríó. „Ég byrjaði 1998 að leika fyrir dansi hjá félagi eldri borgara með Capri tríó. Við spiluðum á hverjum sunnudegi í 21 ár og komum fram í alls 806 skipti. Ég er með þetta allt skrifað hjá mér.“

Auk þess að spila á Le Bistro gerir Þórður mikið af því að spila á hinum ýmsu dagvistarstofnunum. „Ég fer sem sjálfboðaliði og spila fyrir aldraða og fólk með sjúkdóma á borð við alzheimer. Það veitir manni ánægju að sjá hvað tónlistin gerir mikið fyrir fólk og veitir því mikla gleði. Það er það sem þetta snýst allt um.“

Þórður starfaði sem húsvörður í Öldutúnsskóla í 35 ár en lét af störfum eftir veikindi árið 2000. Auk harmonikkuleiksins eru hjólreiðar hans aðaláhugamál og byrjar hann hvern morgun á því að hjóla um Hafnarfjörðinn. „Það má segja að ég hafi verið lengi að útskrifast úr skólanum,“ segir Þórður léttur. „Ég hefði viljað vinna lengur en ég greindist með krabbamein og neyddist til að hætta að vinna. Ég fór í aðgerð og það fór sem betur fer, en núna rækta ég líkama og sál með tónlistinni og hjólreiðum. Það heldur manni gangandi.“








Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.