Lífið

Pökkuðu saman og héldu á vit ævintýranna í Afríku

Ása Ottesen skrifar
Tinna Isebarn og Svava Gunnarsdóttir starfa sem sjálfboðaliðar  við barnaskóla í Úganda.
Tinna Isebarn og Svava Gunnarsdóttir starfa sem sjálfboðaliðar við barnaskóla í Úganda.
„Við fórum til Afríku þar sem við höfum báðar gaman af því að ferðast og okkur hefur alltaf dreymt um að fara í hjálparstarf. Við eigum það sameiginlegt að vera annt um málefni barna og vildum beita okkur í þeim,“ segir Tinna Isebarn, sem vinnur við hjálparstörf í Afríku ásamt Svövu Gunnarsdóttur, vinkonu sinni.

Þær stöllur starfa á vegum „Mentor Volunteers Uganda – Centre for Child Advocacy and life Planning“. „Samtökin beita sér í því að hlúa að munaðarlausum og bágstöddum börnum og reka þrjá skóla. Við erum að kenna við “Nansana Community Primary School” í Úganda og höfum nú fengið að kynnast allri starfseminni og flestum börnunum persónulega.

Stelpurnar kenna börnunum ensku, stærðfræði og landafræði og gengur það ótrúlega vel. “Þetta er dýrmæt reynsla og við höfum fengið að kynnast og verða hluti af öðrum menningarheimi sem er gjörólíkur okkar eigin.“ Börnin sem þær hafa nú fengið að kynnast eru mörg hver alvarlega veik og segir Tinna hversu slegnar þær hafi orðið þegar þær vissu hversu mörg börn látast af völdum malaríu.

„Um hundrað af þeim börnum sem búa hér hafa á þessu ári þjáðst af malaríu. Kostnaður læknismeðferðar er gríðarlegur og veldur því að oft er ekki til peningur fyrir mat handa börnunum.“

Áður en stúlkurnar halda aftur heim til Íslands vilja þær leggja sitt af mörkum og hafa því komið af stað söfnun á Facebook fyrir flugnanetum. „Moskítóflugur bera malaríu á milli manna og því viljum við kaupa moskítónet fyrir öll börnin, hengja þau fyrir ofan rúmin þeirra og brýna fyrir þeim mikilvægi þess að þau verði notuð í hvívetna.“

Aðspurð segir Tinna að þær hafi fengið frábærar viðtökur og vilja þær þakka öllum þeim sem hafa lagt málefninu lið. “Við ætlum að vera í nokkra daga í viðbót í Úganda og koma netunum fyrir. Við viljum fylgja þessu eftir og sjá til þess að flugnanetin rati á réttan stað. Að því loknu ætlum við til Tansaníu þar sem við munum ferðast um Zanzibar í eina viku áður en við komum heim,“ segir Tinna Isebarn að lokum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.