Skoðun

Framtíðarsýn eða fortíðarhyggja

Aðalsteinn Snorrason skrifar
Frá árinu 2008 hefur íslenskur byggingamarkaður gengið í gegnum samdráttarskeið sem ekki á sér hliðstæðu á sögulegum tíma. Samkvæmt skýrslu Samtaka arkitektastofa (áður FSSA) frá haustinu 2010 var um samdrátt að ræða sem reyndist 67% skv. þeim opinberu tölum sem skýrslan byggði á. Á þessu fimm ára tímabili sem nú er liðið frá hruni hefur skapast allnokkur þörf fyrir nýbyggingar sem ekki hefur verið svarað að sama skapi.

Íbúðamarkaðurinn er enn í þeirri erfiðu stöðu að lóðarverð er innlyksa hjá skuldsettum sveitarfélögum sem ekki geta lagað sig að núverandi markaðsverði sökum laga um fjárreiður sveitarfélaga. Framleiðslukostnaður á íbúðum miðað við söluverð er enn það hár að ekki hefur myndast hvati til framkvæmda að neinu marki. Til að setja þetta í samhengi má nefna að fleiri íbúðir voru byggðar á ári í kreppunni miklu en það sem hefur átt sér stað undanfarin ár þegar verst lét.

Opinber verkefni hafa verið í deiglunni síðustu tvö árin en eru ekki komin á skrið sem skyldi. Mikil vöxtur í ferðaþjónustu hefur undirstrikað þörfina á uppbyggingu í verkefnum tengdum ferðaþjónustu og þar er mikið verk óunnið og mörg þeirra þess eðlis að vart verður staðið að þeim nema með opinberum hætti.

Sterkasta einkenni í ímynd landsins er náttúran og þá staði sem hafa mest aðdráttarafl þarf að passa upp á sem gersemar þjóðarinnar. Opinberir aðilar þurfa að koma að því verkefni, þó ekki væri nema að stefnumörkun þeirra. Meðan ekkert er að gert drabbast þessar gersemar niður gestum að kostnaðarlausu og virðist það vera meira metnaðarmál að taka ekki gjald fyrir heimsóknina en að hafa upp á eitthvað að bjóða sem eykur gildi staðarins og verndar hann.

Góð fyrirmynd

Til er norskt verkefni sem nefnist „Nasjonale turistveger“ sem unnið hefur verið að síðustu tuttugu árin, en þar er aukið við gildi áhugaverðra ferðaleiða. Kynning var á þessu verkefni á vegum Íslandsstofu 30. október 2012 og kom þar fram í máli Trine Kanter Zwerekh að um væri að ræða framúrskarandi fallega náttúru og allt manngert umhverfi skyldi vera í það minnsta jafn gott ef ekki betra. Þetta viðhorf þarf ekki að snúast um aukinn kostnað en sýnir fyrst og fremst hugsunarhátt sem okkur Íslendinga sárlega vantar. Þetta norska verkefni gæti verið góð fyrirmynd fyrir uppbyggingu ferðamanna- og áningarstaða hér á landi.

Mikil óvissa ríkir nú á íslenskum byggingamarkaði og því er mikilvægt að þau verkefni sem fyrirhuguð hafa verið hljóti brautargengi og hlúð sé að þeim af metnaði og fyrirhyggju. Verkefni sem lúta að vexti atvinnugreina eru mikilvæg á tímum sem þessum ásamt verkefnum til að tryggja eðlilegt þjónustustig í landinu. Benda má sérstaklega á að vöxtur í ferðaþjónustu er með þeim hætti að þar er um brýna þörf að ræða og ef ekkert verður að gert verður ímynd landsins fyrir tjóni til lengri tíma litið.




Skoðun

Sjá meira


×