Innlent

Erótískar útstillingar blasa við börnunum

Jóhannes Stefánsson skrifar
Þetta er útsýnið frá frístundaheimilinu.
Þetta er útsýnið frá frístundaheimilinu. mynd/pjetur
Foreldrar barna á frístundaheimilinu Glaðheimum eru óánægðir með aðstöðu barnanna sem er lýst sem gamalli, ljótri og óhentugri.

Kristín Helga Káradóttir, móðir drengs í Langholtsskóla, er orðin langþreytt á ástandinu og kallar eftir breytingum.

Hún segir sex til níu ára börnin þurfa að ganga um hálfan kílómetra yfir hættulegar umferðargötur.

„Það er ekki ásættanlegt að yngstu börn Langholtsskóla þurfi í stórum hópum að ganga í lok dags eftir mikilli umferðargötu, Holtavegi, og fara yfir fjórar götur á leiðinni, Langholtsveg, Efstasund, Skipasund og Sæviðarsund í öllum veðrum,“ segir Kristín.

Þegar í Glaðheimum taki ekki betra við. „Krakkarnir leika sér við óhentugar aðstæður í gluggalausum búningsklefum í húsnæði sem hefur ekki verið haldið við árum saman.“

Þá er Kristín óánægð með að erótísk verslun sé beint á móti frístundaheimilinu þar sem gínum í erótískum klæðnaði er gjarnan stillt upp í gluggum.

Staðsetningin óheppileg

Haraldur Sigurðsson, forstöðumaður frístundamiðstöðvarinnar Kringlumýri sem rekur Glaðheima, tekur undir með Kristínu að húsnæðið sé að vissu leyti ekki hentugt. Þá hafi langvarandi fjársvelti orðið þess valdandi að nauðsynlegu viðhaldi hafi verið slegið á frest árum saman. Það standi þó til bóta nú.

„Þau mál eru loksins komin í horf. Framkvæmdir eru byrjaðar. Viðhald í húsinu hefur ekki verið gott vegna niðurskurðar og foreldrar eru eðlilega ekki ánægðir með það. Núna er verið að breyta húsnæðinu og aðlaga það starfseminni sem er í húsinu,“

Haraldur tekur undir það að óheppilegt sé að frístundaheimilið sé gegnt erótískri verslun, en hann bendir þó á að verslunareigandinn hafi brugðist við beiðnum um hófstilltari gluggaútstillingar.

Haraldur vonast til þess að til lengri tíma verði hægt að færa starfsemina í hentugra húsnæði nær skólanum.

„Það er til skoðunar hvort hægt sé að byggja við Langholtsskóla, en það liggur ekkert fyrir í þeim efnum,“ segir hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×