Innlent

Tveggja stúlkna leitað vegna nauðgunar

María Lilja Þrastardóttir skrifar
Óskað er eftir því að stúlkurnar gefi sig fram við lögreglu.
Óskað er eftir því að stúlkurnar gefi sig fram við lögreglu.
Lögreglan á Suðurnesjum lýsir eftir tveimur konum sem mögulegum vitnum í nauðgunarmáli.

Konurnar tvær munu hafa verið á leið til höfuðborgarinnar frá Reykjanesbæ aðfaranótt sunnudagsins 30. júní og tóku, á leið sinni í gegnum bæinn, upp unga stúlku í bílinn og keyrðu hana heim til sín.

Umræddar stúlkur voru að öllum líkindum á bláleitum fjögurra dyra smábíl og aftan í honum var barnastóll eða barnasæti.

Bifreiðin var kyrrstæð ofarlega á Hafnargötu þegar stúlka kom að og bað um að sér yrði ekið heim og urðu konurnar við þeirri bón hennar.

Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Suðurnesjum er rannsókn málsins á frumstigi, en engar vísbendingar hafa borist um hverjar konurnar eru. „Það er mjög mikilvægt að þær gefi sig fram, sem við höfum fulla trú á að þær geri,“ segir Jóhannes Jensson, rannsóknarlögregla á Suðurnesjum.

Konan sem um ræðir ku vera mjög ung að árum en ekki liggur fyrir hve gamlar konurnar tvær sem lýst er eftir eru. Þó er talið að þær séu einnig frekar ungar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×